Góð aðsókn að 17. júní skemmtun í Garðinum
Þátttaka íbúa í 17. júní hátíðarhöldum í Garðinum varð heldur betri en bjartsýnustu menn áttu von á en þar sem 17. júní bar upp á sunnudag þetta árið, átti hollvinahópur 17. hátíðar í Garðinum ekki von á sérstakri mætingu. Fjöldi fólks leggur leið sína í sumarbústaði, knattspyrnumót yngriflokka og hátt í 60 konur úr kvenfélaginu Gefn eru í Tírol í Austurríki þessa stundina og það munar um minna í litlu bæjarfélagi.
En þátttakan varð framar vonum og á tíma horfði til vandræða með kökur og kaffisöluna en því var bjargað snarlega af vaskri sveit foreldra verðandi 10. bekkinga, en krakkarnir fá að selja kaffi og kökur sem fjáröflun fyrir útskriftarferð vorið 2013.
Hátíðin hófst í kirkjunni með stuttri þjóðhátíðarmessu. Síðan fór skrúðganga frá kirkjunni og yfir í Gerðaskóla þar sem tveggja tíma skemmtidagskrá fór fram.
Ólína Ákadóttir hyllti Íslenska fánann, Eiríkur Hermannsson flutti hátíðarræðu, Sigurlaug Arna var fjallkona og nemendur Gerðaskóla og Tónlistarskólans sáu að mestu um skemmtiatriðin. Hljómsveitin Bógus lék á milli atriða og Einar Mikael galdramaður kíkti við og skemmti krökkunum með ótrúlegum göldrum. Börnin fengu andlitsskreytingu og traktorslestin óborganlega hringsólaði með börnin úti á leiksvæði Gerðaskóla.
Næstu helgi verður fjörið ekki síðra í Garðinum en þá fer fram hin árlega Sólseturshátíð.
Mynd: Einar Mikael töframaður skemmti jafnt börnum sem fullorðnum.