Go-kart braut opnar í Njarðvík
Go-kart brautin ofan við Innri Njarðvík var opnuð sl. laugardag. Stefán Guðmundsson og fjölskylda eiga reksturinn og að sögn Stefáns hafa viðtökur verið mjög góðar og gestir verið á öllum aldri.„Brautin er 600 m löng og 8 m breið og hugmyndin er að stækka brautina í framtíðinni. Næsta vor stefnum við á að opna 500 fm stálgrindarhús, en þar verður veitingarekstur og tilheyrandi“, segir Stefán.Go-kart bílarnir koma frá Svíþjóð, ellefu eru af gerðinni Dino, einn Caroli og einn barnabíll. Þeir komast í 70 km hraða, eru með 200 kúbika Honda mótor, 6,5 hestöfl fjórgengis. „Bílarnir eru búnir öryggisgrind allan hringinn og ökumenn sitja mjög lágt í þeim þannig að veltuhætta er engin. Öryggisbúnaður þeirra er samkvæmt öryggisstaðli Vinnueftirlits ríkisins og að sjálfsögðu þurfa allir að aka með hjálma“, segir Stefán.Svæðiðí kringum brautina er grasilagt, tvo metra allan hringinn og þar fyrir utan er mold sem búið er að sá í. Ef bílum er ekið útaf, þá lenda þeir ekki á neinni fyrirstöðu, heldur renna bara út í móa.Að sögn Stefáns hafa gestir verið á aldrinum 10-60 ára, en 10 ára börnum er ekki leyfilegt að aka nema í fylgd foreldra. „Innan skammt munum við bjóða upp á sérstök kvöld þar sem foreldrar geta komið með börn sín og eru þá ábyrg fyrir þeim“, segir Stefán.Gjaldið fyrir að keyra go-kart bílana er 2000 kr. fyrir tíu mínútur. Að sögn Stefáns eru sumir alveg sjúkir í að keyra og þá er sérstakur afsláttur fyrir þá aðila. „Önnur ferð kostar 2000 kr. og þriðja og fjórða kosta 1000 kr. og svo kostar ekki neitt að fara í fimmta sinn. En ég tek það fram að þessi verð eru í gildi fyrir þá sem fara allar ferðirnar samdægurs“, segir Stefán.