Glussaolía lak niður í íbúðahverfi
Síðasta vika var viðburðarík hjá lögreglunni í Keflavík eins og sést þegar dagbók lögreglunnar er lesin. Meðfylgjandi er dagbókarbrot fyrir síðustu viku. Dagbók helgarinnar er væntanleg.
Mánudagurinn 15. september 2003
Kl. 07:40 var tilkynnt um innbrot í vörubifreið á Bolafæti í Njarðvík. Innbrotið átti sér stað um síðustu helgi. Úr bifreiðinni var stolið útvarptæki með geislaspilara.
Kl. 09:26 var tilkynnt um rúðubrot í fjölbýlishús við Vatnsholt í Keflavík. Lögreglumenn fóru á staðinn. Einn maður var handtekinn og telst málið vera upplýst.
Kl. 10:18 var tilkynnt um útafakstur og umferðarslys á Nesvegi nokkru austan við Saltverksmiðjuna á Reykjanesi. Ökumaðurinn, sem var einn í bifreiðinni, var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar. Bifreiðin var mikið skemmd eftir óhappið.
Kl. 11:44 barst lögreglu tilkynning um hættulegar vinnuaðferðir málara á Duushúsum í Keflavík. Lögreglumenn fóru á staðinn. Til verksins notuðu málararnir lyftara sem þeir voru ekki með réttindi á. Lyftarinn var í efstu stöðu. Ofan á lyftaranum var síðan álstigi sem mennirnir voru að vinna efst í. Vinnueftirlitið var kallað til og stöðvaði það vinnu á vettvangi.
Kl. 13:55 barst lögreglu tilkynning að Lukku Láki SH-501, 18 tonna stálbátur, hafi sokkið um 7 sjómílur vestur af Sandgerði og að skipverjarnir tveir hafi komist í björgunarbát og síðan um borð í Svölu Dís KE-029. Skipverjunum varð ekki meint af. Þeir voru færðir til hafnar í Sandgerði. Atburðurinn átti sér stað um kl. 12:30.
Kl. 14:01 var lögregla og sjúkrabifreið kölluð á Suðurgötu í Keflavík þar sem eldri kona hafði dottið í götuna og fengið skurð á höfuðið. Konan var flutt á HSS til aðhlynningar.
Kl. 19:20 var tilkynnt um pilt með "Paintballbyssu" á Suðurgötu í Keflavík. Fóru lögreglumenn á staðinn og höfðu upp á piltinum sem hafði verið með byssuna í láni en var búinn að skila henni til eigandans. Var einnig rætt við móðir piltsins.
Kl. 21:08 var tilkynnt um minniháttar umferðaróhapp á Vesturgötu. Engin slys urðu á fólki.
Kl. 21:40 var tilkynnt um ölvaðan mann sem hafði dottið á Suðurgötu. Fóru lögreglumenn og fluttu manninn á HSS til skoðunar en óku honum síðan heim.
Kl. 21:59 var tilkynnt um gáleysislegt ökulag létt bifhjóls í Garði og var ökumaður með farþega á hjólinu. Fóru lögreglumenn á staðinn og höfðu upp á hjólinu og ræddu við ökumann þess sem ekki hefur réttindi á hjólið. Einnig ræddu lögreglumenn við farþegann og foreldra piltanna.
Þriðjudagurinn 16. september 2003
Rólegt var á dagvaktinni hjá lögreglu. Gjaldseðlar voru settir á tvær bifreiðar þar sem þeim var illa lagt í Keflavík.
Skömmu fyrir hádegi varð smávægilegt umferðaróhapp í Sandgerði. Þar var vörubifreið ekið utan í bensíndælu en skemmdir urðu smávægilegar.
Kl. 20:17 var óskað aðstoðar lögreglu að húsi í Grindavík vegna ágreinings sambúðarfólks sem var að slíta samvistum.
Þrír voru kærðir fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbraut og var sá sem hraðast ók á 127 km. hraða.
Einn var kærður fyrir brot á stöðvunarskyldu.
Skráningarnúmer voru tekin af þremur bifreiðum vegna vanrækslu á vátryggingaskyldu.
Miðvikudagurinn 17. september 2003
Um kl. 10:30 voru settir gjaldseðlar á sjö bifreiðar sem var lagt þar sem óheimilt er að leggja utan við Fjölbrautarskóla Suðurnesja.
Kl. 12:26 var tilkynnt um umferðaróhapp á Faxabraut við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Engin slys urðu á fólki.
Kl. 13:28 barst tilkynning til lögreglunnar um að olíuglussi hafi farið niður í jarðveg þar sem verið var að vinna með kranabifreið í Klettás, nýja íbúðahverfinu í Njarðvík. Brunavarnir Suðurnesja sáu um að hreinsa upp glussaolíuna.
Kl. 14:29 var ökumaður kærður fyrir að aka á 116 km hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 km.
Kl. 21:00 kom á lögreglustöðina ökumaður sem tilkynnti að hann hafi ekið á grjóthnullung á Reykjanesbraut um morguninn. Ökumaður sagði óhappið hafa átt sér stað á Strandarheiði, rétt austan við hjáleiðina og hafi það valdið skemmdum á svuntu framan á bifreiðinni og stýrisbúnaði.
Fimmtudagurinn 18. september 2003.
Kl. 10:56 var tilkynnt til lögreglu að brotist hafi verið inn í bifreið utan við Fitjabraut 24, Njarðvík. Hurð á bifreiðinni hafði verið spennt upp og úr henni tekinn geislaspilari af gerðinni Pioneer. Málið er í rannsókn.
Kl. 22:24 var settur gjaldseðill á eina bifreið þar sem henni hafði verið lagt öfugt miðað við akstursstefnu á Hafnargötu móts við Nýja bíó í Keflavík.
Kl. 23:24 var ökumaður stöðvaður á Reykjanesbraut á Strandarheiði fyrir ógætilegan akstur. Í viðræðum við hann kom í ljós að hann er sviptur ökuleyfi.
Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur, þrír á Reykjanesbraut og einn á Grindavíkurvegi. Sá sem hraðast ók var á 129 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km.