Gluggagægir í Njarðvík
Aðfaranótt sunnudags barst lögreglunni í Keflavík tilkynning um að maður hefði verið að gægjast á glugga við einbýlishús í Njarðvík. Foreldrar skelkaðs barns tilkynntu um málið eftir að hafa orðið vitni að dökkklæddum manni hlaupa frá húsinu. Foreldrarnir urðu varir við hljóð frá barninu og sáu gluggagæginn hlaupa á brott er þau komu inn í herbergi barnsins. Jóhannes Jensson, aðstoðar yfirlögregluþjónn í Keflavík, sagði að mál af þessu tagi komi upp annað slagið en að langt væri um liðið síðan gluggagjægur voru tilkynntar síðast. Jóhannes ítrekaði einnig að ef fólk yrði vart við ókunnugar mannaferðir af þessu tagi þá bæri að tilkynna þær tafarlaust til lögreglu. Að svo stöddu hefur lögreglan engar frekari upplýsingar um málið.