Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Glotti átti ekki að fara á uppboð
Mánudagur 9. febrúar 2009 kl. 16:37

Glotti átti ekki að fara á uppboð

- og eigandinn því í fullum rétti að selja hestinn til Danmerkur




Verðlaunahesturinn Glotti frá Sveinatungu var í fullum rétti að fara til Danmerkur  skömmu fyrir jól. Glotti var auglýstur á nauðungaruppboði sem átti að fara fram á hestinum þann 12. febrúar næstkomandi.

Fjárnám hafði verið gert í Glotta vegna skuldar hjá dýralækni. Skuldin hafi hins vegar verið greidd og staðfesti Sveinbjörn Sveinbjörnsson lögmaður að auglýsing um uppboð á Glotta frá Sveinatungu hafi verið afturkölluð og því birting hennar í síðustu viku mistök. Eiganda Glotta hafi því verið heimilt að selja hestinn úr landi, en eins og greint var frá hér á vf.is í gær er Glotti frá Sveinatungu kominn á færeyskan hestabúgarð í Danmörku.

Glotti átti því eftir allt saman ekkert erindi inn í frétt þar sem hann var í hópi um 100 fasteigna og skipa sem voru auglýst á nauðungaruppboði í síðustu viku af Sýslumanninum í Keflavík. Eigandi Glotta frá Sveinatungu hefur orðið fyrir talsverðum óþægindum vegna birtingar auglýsingarinnar og þeirrar umfjöllunar sem fór í gang í kjölfarið.

Það var ekki ætlun vf.is að valda hlutaðeigandi óþægindum, heldur þótti það athyglisvert að á meðal fasteigna og skipa væri verðlaunahross á uppboði. Það þóttu ekki síður tíðindi að hesturinn væri farinn ytra og ekki væntanlegur aftur til landsins. Ráðgátan hefur nú verið leyst, Glotti fór skuldlaus til Danmerkur og átti aldrei að verða auglýstur á uppboði. Eru hlutaðeigendur beðnir velvirðingar á óþægindum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024