Glöggt er gests augað
Öryggisheimsóknir til eldri borgara í samvinnu Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Öryggismiðstöðvarinnar
„Glöggt er gests augað“ nefnist landsátak um öryggi eldri borgara sem slysavarnadeildir innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Öryggismiðstöðin standa að sameiginlega. Á næstu vikum fá nær allir einstaklingar fæddir árið 1937 bréf og býðst þeim í framhaldinu heimsókn frá fulltrúum slysavarnadeildanna þar sem farið verður yfir öryggismál og slysavarnir á heimilinu.
Samkvæmt slysaskrá Íslands verða um 75% slysa hjá eldri borgurum á eða við heimili þeirra. Flest slysanna eiga sér stað við rúmið eða á baðherberginu. Afleiðingar þessara slysa eru oft alvarlegri en hjá þeim sem yngri eru. Þau geta dregið verulega úr líkamlegri færni og sjálfsbjargargetu einstaklingsins, jafnvel svo að hann verður ófær um að búa áfram í eigin húsnæði.
Með heimsóknunum viljum við vekja eldri borgara til vitundar um öryggismál innan heimilisins og mikilvægi byltuvarna. Við lítum á það sem samfélagslega ábyrgð okkar.
Í öryggisheimsókn sjálfboðaliða slysavarnadeildanna verður farið yfir helstu öryggisatriði
Slysavarnadeildir hafa farið í sambærilegar heimsóknir í nokkrum bæjarfélögum á síðustu árum. Í því verkefni upplifðu deildirnar ríka þörf fyrir úrbætur og vitundarvakningu um öryggismál á heimilum eldri borgara. Því var ákveðið að setja af stað landsátakið „Glöggt er gests augað“ – öryggisheimsóknir til eldri borgara.