Glóðin: Bæjarráð mælir ekki með leyfi til skemmtistaðareksturs
Bæjarráð Reykjanesbæjar mælir ekki með því að Nýja Glóðin ehf fái leyfi til að reka skemmtistað að Hafnargötu 62.
Mikið hefur borðið á kvörtunum íbúa í nágrenninu vegna reksturs skemmtistaðar í húsnæðinu, sem í mörg ár hýsti veitingastaðinn Glóðina. Síðustu misseri hefur verið rekin þar skemmtistaður og veitingahús, fyrst undir nafninu Primo og eftir síðustu eigendaskipti var gamla nafnið Glóðin endurvakið. Íbúar í nærliggjandi húsum hafa kvartað yfir miklu ónæði.
Sýslumaðurinn í Keflavík hafði sent umsókn staðarins til umsagnar bæjarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum á fimmtudaginn.
„Vegna ítrekaðs ónæðis sem íbúar hafa orðið fyrir af hálfu staðarins og stöðugra kvartana nágranna vegna hávaða og slæmrar umgengni getur bæjarráð ekki mælt með að Nýja Glóðin ehf. fái leyfi til að reka skemmtistað að Hafnargötu 62. Bæjarráð samþykkir hins vegar fyrir sitt leyti umsókn um rekstur veitingahúss á staðnum með opnunar- og veitingatíma áfengis til kl. 23 alla daga, þó til kl. 01 aðfaranótt laugardags, sunnudags eða almenns frídags,“ segir bæjarráð í umsögn sinni.