Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gleðjast yfir niðurstöðu samræmdra prófa
Föstudagur 16. desember 2016 kl. 06:00

Gleðjast yfir niðurstöðu samræmdra prófa

Nemendur í sjöunda bekk í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ stóðu sig best allra á landinu í samræmdu prófi í stærðfræði sem lagt var fyrir í september síðastliðnum. Af sex skólum í Reykjanesbæ voru þrír sem komust á lista þeirra skóla sem koma best út úr prófunum; Njarðvíkurskóli, Holtaskóli og Myllubakkaskóli. Enginn skóli í Reykjanesbæ er meðal þeirra sem lakasta útkomu fengu.

Prófað var í íslensku og stærðfræði og er meðaltalið hjá Njarðvíkurskóla, Myllubakkaskóla og Heiðarskóla vel yfir meðaltali á landsvísu. Að sögn Helga Arnarsonar, sviðsstjóra fræðslusviðs hjá Reykjanesbæ, hefur verið unnið mjög gott starf í menntamálum undanfarin ár og hefur það skilað sér í bættum árangri á ýmsum sviðum. „Meðal annars kemur það fram í bættum árangri í samræmdum könnunarprófum. Sá árangur er fyrst og fremst til kominn vegna þess að allir hafa lagst á árarnar. Sterk fagleg forysta fræðsluskrifstofunnar hefur gegnt lykilhlutverki.“ Þá segir Helgi að stuðningur foreldra hafa skipt sköpum og ekki síst framlag barnanna sjálfra sem hann segir vert að vera stolt af, ekki eingöngu vegna árangurs þeirra í samræmdum prófum, heldur á ýmsum sviðum lífs og leiks.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að sögn Bryndísar Guðmundsdóttur, skólastjóra Myllubakkaskóla, hefur Reykjanesbær unnið ötullega að því að bæta árangur nemenda. „Við teljum þetta meðal annars vera árangur þeirrar vinnu. Mikil vinna með nemendur og góð samvinna við foreldra er að skila sér í þessum góða árangri.“ Þá segir hún kennara hafa lagt mikla áherslu á að nemendur öðlist góðan skilning á efninu og að atriðin sem farið er yfir festist í sessi með endurtekningu.

Í gegnum tíðina hafa kennarar við Myllubakkaskóla farið vel yfir niðurstöður samræmdra prófa þegar þær eru birtar og kennarar þeirra árganga sem þreyta prófin hverju sinni taka niðurstöðurnar saman og kynna fyrir öðrum kennurum skólans. „Þetta gerum við til að finna styrkleika okkar og veikleika.“ Nemendur sem núna eru í 7. bekk hafa haldið þeim góða árangri sem þau náðu í 4. bekk og segir Bryndís það mjög jákvætt. „Í Myllubakkaskóla er lögð mikil áhersla á fjölbreytni í skólastarfi. Hér eru mjög góðir kennarar sem leggja áherslu á að nemendum líði vel og að það sé gaman í skólanum. Hér blómstrar listalífið og við erum stolt af okkar nemendum sem standa sig vel á mörgum sviðum.“

Ásgerður Þorgeirsdóttir, skólastjóri Njarðvíkurskóla, tekur í sama streng og segir breytt vinnulag sem tekið var upp fyrir fimm til sex árum hafa skipt sköpum í skólastarfi. Niðurstöður prófa séu nýttar til að sjá hvað megi bæta og að mikil samstaða meðal foreldra og allra starfsmanna skólanna hjálpi til við að bæta námsárangur.