Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gleðilegt sumar framundan
Fimmtudagur 15. apríl 2004 kl. 16:14

Gleðilegt sumar framundan

Ferðamálasamtök Suðurnesja stóðu fyrir sínum árlega aðalfundi í félagsheimilinu í Garðinum á þriðjudag. Fundurinn var vel sóttur bæði af nefndarmönnum og öðrum sem starfa í ferðamannaþjónustu og öðru sem tengist ferðaiðnaðinum en mikið var rætt um sumarið og því sem koma skal.
Fram kom á fundinum að Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa sótt um lóð fyrir þjónustuhús við Reykjanesvita en það er til að mæta mikilli umferð um svæðið og hafa þau ályktað að brýn þörf sé fyrir slíkt hús. Einnig kom fram í skýrslu stjórnar að samtökin telja það alls óviðunandi að enn skuli finnast virkar sprengjur á útivistarsvæðum á Suðurnesjum og að þetta skaði ímynd svæðisins sem öruggt útivistarsvæði fyrir fjölskyldur. Formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja, Kristján Pálsson, sagði í samtali við Víkurfréttir að samtökin hafa fengið bréf frá utanríkisráðuneytinu þar sem lýst er yfir fullum vilja til að mæta þessum vanda en samt sé of lítið gert miðað við alvarleika hans. Kristján sagði einnig að það stefni í gott sumar hvað varðar aðsókn að ferðamannastöðum og bókunum á hótel og gistiheimili og telur að töluverð aukning verði frá því í fyrra. Hann telur einnig mikilvægt að bæði bæjarfélögin og fólkið sem vinnur við ferðaþjónustu vinni saman í því að fá ferðamanninn á Reykjanesið. Einnig kom fram á fundinum að uppátæki Ferðamálasamtaka Suðurnesja með menningardaga í kirkjum á Suðurnesjum hafi tekist mjög vel og áætlað sé að halda þá aftur í október á þessu ári.

Myndin: Frá aðalfundi Ferðamálasamtaka Suðurnesja í Garðinum sl. þriðjudag. VF-ljósmynd/Atli Már Gylfason.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024