Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 2. júní 2000 kl. 15:59

Glæsilegt safnaðarheimili við Keflavíkurkirkju vígt

Nýtt rúmlega 300 milljóna króna safnaðarheimili við Keflavíkurkirkju var vígt í gær. Það var biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, sem predikaði og vígði Kapellu vonarinnar og blessaði Kirkjulund, nýtt safnaðarheimili við Keflavíkurkirkju, um leið og minnst var 1000 ára kristni á Íslandi. Bygging safnaðarheimilisins hefur staðið yfir síðan í október 1996 en þá var fyrsta skóflustungan tekin. Miklar deilur, umræður og loks kosningar urðu um þessa byggingu. Nágrannar og fleiri bæjarbúar voru ekki sáttir við hana, vildu m.a.ekki hrófla við blettinum í kringum kirkjuna. Prestar Keflavíkurkirkju þeir Ólafur Oddur Jónsson og Sigfús Baldvin Ingvason þjónuðu fyrir altari í hátíðarmessunni á uppstigningardegi. Kór Keflavíkurkirkju leiddi söng undir stjórn Einars Arnar Einarssonar.Valgerður Björk Pálsdóttir var fulltrúi ungu kynslóðarinnar í athöfninni og var lesari eins og Karl Sigurbergsson sem á hinn bóginn var fulltrúi eldri kynslóðarinnar. Eftir messuna vígði biskup kapelluna var athöfn í stóra sal safnaðarheimilisins og ma. frumflutt verkið Kantata eftir Eirík Árna Sigtryggsson en hann samdi það í tilefni af vígslu Kapellu vonarinnar og blessunar Kirkjulundar. Kór Keflavíkurkirkju flutti verkið ásamt tónlistarfólki. Jónína Guðmundsdóttir, formaður sóknarnefndar og Birgir Guðnason, formaður bygginganefndar safnaðarheimilis fluttu ávörp.Bæjarbúar fjölmenntu á athöfnina og var kirkjan fullsetin. Þeim var boðið upp á kaffiveitingar og naut fólks þeirra í glæsilegu umhverfi Kirkjulundar. Var fólk mjög ánægt með bygginguna enda ekki hægt annað. Ljóst er að vandað hefur verið til verks í alla staði. Kostnaður er reyndar á móti mikill en heildarkostnaður fer yfir 300 milljónir króna.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024