Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Glæsilegir Sandgerðisdagar framundan
Föstudagur 24. ágúst 2007 kl. 12:48

Glæsilegir Sandgerðisdagar framundan

Sandgerðisdagar verða haldnir hátíðlegir um næstu helgi og má með sanni segja að sjaldan hafi legið fyrir eins metnaðarfull dagskrá. 
Listamenn og aðrir skemmtikraftar, bæði heimamenn og aðkomumenn, munu skemmta Sandgerðingum og gestum þeirra í þá þrjá daga sem hátíðin stendur.

„Það er mjög mikið í boði fyrir alla fjölskylduna,“ sagði Bergný Jóna Sævarsdóttir, framkvæmdastjóri Sandgerðisdaga, í samtali við Víkurfréttir. Hún hefur haft umsjón með skipulagningu síðustu vikurnar. „Á föstudag [í dag] verður til dæmis ratleikur fyrir fjölskylduna og glæsileg kvöldskemmtun. Það sem er sérstakt við hátíðina í ár er að nú höfum við skipt bænum í fjóra hluta þar sem hver hópur skreytir hús sín og götur í ákveðnum lit. Það skapar skemmtilega stemmningu og hafa bæjarbúar verið afar jákvæðir gagnvart því.“ Fyrir utan framlag bæjaryfirvalda leggjast allir bæjarbúar á eitt til að gera Sandgerðisdaga sem best úr garði og eru íþróttafélögin engin undantekning því knattspyrnudeildin, Golfklúbburinn, og píluklúbburinn munu öll standa fyrir uppákomum á hátíðinni. Þá verður aflraunakeppnin Sandgerðistuddinn á laugardeginum, en m.a. er hægt að skrá sig í Skýlinu hjá Bergný Jónu.


Hátíðin nær hápunkti sínum á laugardegi þar sem öll hverfin koma saman við Vörðuna þaðan sem er svo haldið í einum stórum hóp niður að hátíðarsvæði við bryggjuna. Um kvöldið verður svo bryggjuball þar sem tónlistarfólk úr bænum leikur fyrir dansi og svo verður enginn svikinn af flugeldasýningunni.


„Vð verðum með frábær tónlistaratriði alla dagana og það er alveg æðislegt að geta boðið upp á svo mikið af hæfileikafólki héðan úr bænum,“ segir Bergný að lokum. „En ég vil annars hvetja alla til að kynna sér dagskrána og koma við í Sandgerði um helgina og skemmta sér með okkur. Það verður nóg pláss fyrir alla á tjaldstæðinu!“

Sjá dagskrá


VF-mynd/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024