Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 25. september 2000 kl. 10:38

Glæsileg íþróttamiðstöð í Garði

Í Garðinum er glæsileg íþróttamiðstöð og að undanförnum hafa ýmsar breytingar verið gerðar á henni. Í vor var vaðlaug komið upp á sundlaugarbakkanum en þar eru fyrir tveir heitir pottar. Tækjasalurinn er einnig orðinn mjög fullkominn og að sögn Jóns Hjálmarssonar, forstöðumanns, hefur aðsókn að honum verið góð en aðsókn að sundlauginni mætti vera betri. Íþróttamiðstöðin var opnuð 1993 og nú eru þar fimm starfsmenn. Fyrstu árin voru um 30-33 þús. heimsóknir í íþróttamiðstöðina en nú eru um 45 þús. komur skráðar á ársgrundvelli. Að sögn Jóns hefur þreksalurinn og ljósabekkirnir aukið aðsóknina og hann vonast til að vaðlaugin eigi eftir að auka hana enn frekar. „Við buðum upp á innileikfimi í fyrra vetur undir stjórn Laufeyjar og var því mjög vel tekið. Okkur langar til að vera með leikfimi í vetur en höfum ekki enn fengið leiðbeinanda til að taka þetta að sér, við óskum því hér með eftir leiðbeinanda“, segir Jón. Íþróttasalurinn er vel nýttur á veturna og nú þegar er búið að ráðstafa flestum tímunum. „Sundlaugin hér er mjög góð. Þó það blási stundum kröftuglega þá kemur það ekki að sök því skjólið við laugina er mjög gott. Hér er notalegt að vera þrátt fyrir að veðrið sé ekki alltaf sem best“, segir Jón og hvetur Garðbúa og nærsveitunga til að setja á sig sundfitin og stinga sér á bólakaf í djúpu laugina.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024