Glæfraakstur með gult vinnuljós
Sautján ára ökumaður varð uppvís að því um helgina að aka um með gult vinnuljós, sem hann hafði útvegað sér, á bifreið sinni. Að auki ók hann glæfralega og skapaði hættu í umferðinni. Lögreglumenn á Suðurnesjum ræddu alvarlega við hann og létu aðstandendur hans vita af tiltækinu.
Þá var umferðarskilti ekið niður í Keflavík og bifreið jafnframt stöðvuð, sem reyndist vera á skráningarnúmerum sem tilheyrðu annarri bifreið.
Átta ökumenn voru svo kærðir fyrir hraðakstur og nokkuð var um minni háttar umferðaróhöpp.