Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Glaður með kosningabaráttuna
Föstudagur 1. október 2021 kl. 14:09

Glaður með kosningabaráttuna

Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, er nýr þingmaður í Suðurkjördæmi. Segja má að hann hafi óvænt komist á Alþingi þegar endurtalið var í Norðvesturkjördæmi. Þá varð hann jöfnunarþingmaður í Suðurkjördæmi fyrir Viðreisn. Hann tók því sæti Hólmfríðar Árnadóttur frá VG sem hafði vermt jöfnunarþingsætið í níu klukkustundir.

Tveir oddvitar úr meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar eru nú orðnir þingmenn í Suðurkjördæmi. Guðbrandur er kosinn á þing fyrir Viðreisn og Jóhann Friðrik Friðriksson fyrir Framsóknarflokkinn. Jóhann Friðrik var forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar á fyrri hluta kjörtímabils bæjarstjórnarinnar en Guðbrandur tók við á síðari hlutanum. Nú munu þeir félagar úr bæjarstjórn hins vegar segja skilið við bæjarmálin á næstu vikum og snúa sér að landsmálunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar Víkurfréttir náðu tali af Guðbrandi var hann að koma af sínum fyrsta þingflokksfundi og hann á von á því að þeir verði fleiri þó svo ekki sé búið að ganga endanlega frá málum í Norðvesturkjördæmi. Þar var endurtalið á sunnudag með þeim afleiðingum að hringekja jöfnunarþingsæta fór af stað og Guðbrandur fékk sæti á þingi fyrir Viðreisn á kostnað annars jöfnunarsætis Viðreisnar í Norðausturkjördæmi. Á sama tíma missti Hólmfríður Árnadóttir jöfnunarsæti sitt fyrir VG í kjördæminu. „Ég held að það séu nú meiri líkur en minni að þetta standi svona eins og þetta er,“ segir Guðbrandur.

Hvað getur þú sagt okkur um þetta ferðalag að bjóða sig fram til Alþingis?

„Ferðalagið hefur verið alveg bráðskemmtilegt. Ég er búinn að fara víða og kynnast mörgum. Ég hef áttað mig á fórnfýsi margra sem eru tilbúnir að vinna fyrir áhersluatriði Viðreisnar. Ég er mjög glaður með kosningabaráttuna og allt sem að henni lítur.

Þetta hefur reynt talsvert á, að vera fá margar kosninganætur í röð þar sem úrslit liggja ekki fyrir og það er búinn að vera mikill tilfinningakokteill að fara í gegnum það allt saman. Ég var vongóður klukkan hálfsjö á sunnudagsmorgun en klukkustund síðar var ég farinn út af þingi og það voru ákveðin vonbrigði að ná ekki því markmiði að komast á þing. Það er slæmt að þetta gerist, að atkvæðin séu ekki rétt talin í fyrstu atrennu. Ég hefði aldrei dottið út ef það hefði verið talið rétt frá upphafi. Fyrsta talning var röng sem seinni talning leiddi í ljós.“

Hvað tekur núna við þegar tveir af oddvitum meirihlutans í bæjarstjórn Reykjanesbæjar eru allt í einu komnir á þing?

„Já, nú breytist aðeins heima í héraði. Við erum ekki farnir í vinnu inni á Alþingi alveg strax þannig að við getum unnið úr því sem við vorum að vinna í bæjarstjórninni og mátað nýtt fólk í þau hlutverk. Það er talsverð breyting að tveir oddvitar af þremur eru að kveðja sviðið. Við vitum það hins vegar að fólkið sem hefur verið að vinna með okkur er algjörlega fært um að taka við kyndlinum og bera hann áfram. Það mun örugglega taka smá tíma að mynda ríkisstjórn og á meðan er þingið ekki í vinnu. Við munum þá bara nota tímann til að undirbúa okkur og þurfum ekki út úr bæjarstjórninni á meðan það er.“

Þið hafið verið að berja á ríkisvaldinu frá bæjarstjórninni. Nú ertu kominn með betri hljómgrunn þegar þú ert kominn inn á Alþingi. Ætlar þú að halda áfram baráttunni fyrir svæðið?

„Ég get núna unnið að því að koma áherslum svæðisins frekar á framfæri, sem manni hefur oft skorta upp á. Ég ætla að reyna að nýta það tækifæri sem mér gefst núna til að stuðla að því að við náum að sitja við sama borð og aðrir eins og við höfum verið að benda réttilega á mörg undanfarin ár. Það er óvenju fjölmennt frá Suðurnesjum nú á Alþingi og ef við vinnum vel saman þá getum við lagt áherslu á málefni svæðisins,“ segir Guðbrandur.

„Þegar maður kemur inn í Alþingishúsið verður maður svolítið lítill í sér þegar maður skynjar alla þessa sögu sem þarna hefur orðið til og maður verður auðmjúkur að fá að vera kominn þarna. Þetta er virkilega spennandi,“ segir Guðbrandur Einarsson, nýr þingmaður Suðurkjördæmis fyrir Viðreisn.