GK 99 stofnað með stæl!
Hlutafélag til eflingar knattspyrnunnar í Grindavík var stofnað á þriðjudagskvöld. Hlutaféð er nærri 100 milljónir króna og er bæjarfélagið með helminginn af þeirri upphæð. Byggð verður ný 1000 manna stúka og grasvöllur ofan á gamla malarvöllinn.Fjölmennt var á stofnfundi nýja hlutafélagsins sem fengið hefur nafnið GK 99 og er stofnað á hlaupársdeginum 29. febrúar. Nafnið stendur fyrir Grindavík Knattspyrna og stofnárið í lok aldar. Á fundinum sem haldinn var í félagsheimilinu Festi skýrði Björgvin Gunnarsson gang mála hjá Undirbúningsfélaginu sem hann var formaður fyrir. Hann sagði að vel hafi verið staðið að undirbúningnum og bæði bæjarfélagið, fyrirtæki og einstaklingar í Grindavík hafi tekið málinu einstaklega vel. Einar Njálsson skýrði hvernig tekið hefði verið á málinu hjá bæjarfélaginu. Ákveðið hefði verið í bæjarráði fyrir nokkrum dögum að taka þátt í stofnun félagsins með allt að 50 milljóna króna framlagi sem greiðist á næstu 15 árum. Skilyrðið fyrir framlagi bæjarfélagsins sé að minnsta kosti jafn há upphæð safnist á móti. Þá greindi hann frá því að einnig hafi verið ákveðið að skilgreina nýja stúku sem byggja á við nýjan grasvöll sem íþróttamannvirki. Það mun því ekki þurfa að greiða fasteigna- né gatnagerðargjöld af henni eða 550 fermetra þjónustuhúsi og öðrum skyldum byggingum. Nýi grasvöllurinn verður byggður ofan á gamla malarvöllinn.Markmið þessa nýja félags sagði Björgvin Gunnarsson vera skýr; að vera fjárhagslegur bakhjarl alls reksturs knattspyrnudeildarinnar. Gerður verður sérstakur samningur milli stjórnar Knattspyrnudeildar UMFG og GK 99 sem kveður á um samskipti þessara aðila. Knattspyrnudeild UMFG mun hér eftir sem hingað til sjá um rekstur á öllum flokkum karla og kvenna þó með öflugum stuðningi hlutafélagsins GK 99. Nýja félagið mun taka strax til starfa bæði við áframhaldandi söfnun hlutafjár en allir þeir sem skrá sig fyrir hlut í félaginu fyrir 16. maí teljast stofnfélagar. Aðspurður um það hvort sjávarútvegsfyrirtækin kæmu sterk inní þetta félag játaði Björgvin því en hann er sjálfur er gamall skipsstjóri og einn eigenda Fiskaness. „Vissulega koma þau sterk inn í þetta félag en líka mörg önnur hér í bæ sem og einstaklingar“, sagði Björgvin. Búið er að fá loforð fyrir tæplega 50 milljónum króna eða nærri sömu upphæð og bæjarfélagið leggur fram. Fyrsta markmið GK 99 er að safna 90 milljónum með heimild til aukningar í 150 milljónir kr.