Gjaldskrá í Garði hækkar um 4,5%
Gjaldskrá Sveitarfélagsins Garðs fyrir árið 2010 hækkar að meðaltali um 4,5% nú um áramótin. Gjaldskráin var lögð fram á bæjarstjórnarfundi í Garði í gærkvöldi, ásamt því sem fjárhagsáætlun sveitarfélagsins var lögð fram.
Lagt er til að útsvarsprósenta verði áfram óbreytt eða 13.03%. Það var samþykkt með 4 atkvæðum N-listans. Þá munu fasteignaskattar í Garði ekki hækka og byggingaleyfisgjöld verða áfram óbreytt.
F-listinn segir í bókun að það sé jákvætt að ekki eigi að hækka útsvarsprósentuna í fulla heimild. F-listinn hefði þó kosið að færa hana til baka úr 13,03% í 12,7% eins og hún var á síðasta kjörtímabili undir forystu F-listans. „Ekki síst nú þegar landsfeðurnir hækka allar álögur á landsmenn sem aldrei fyrr, þá eigum við sveitarstjórnarmenn í Garði að leita allra leiða til að lækka álögur á okkar íbúa,“ segir í bókun F-listans.
Myndir frá bæjarstjórnarfundi í Garði í gærskvöldi. Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson