Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Gjaldskrá Garðs hækkar um 3 prósent - síðasta ár sveitarfélaginu erfitt
Mánudagur 3. janúar 2011 kl. 09:38

Gjaldskrá Garðs hækkar um 3 prósent - síðasta ár sveitarfélaginu erfitt

Gjaldskrá Sveitarfélagsins Garðs hækkar að jafnaði um 3% sem er áætluð vísitöluhækkun á tímabilinu. Tekjur sveitarfélagsins standa nánast í stað og því nauðsynlegt að gjaldskráin hækki á móti miklum kostnaðarhækkunum og vísitölu. Þetta kemur fram í greinargerð Ásmundar Friðrikssonar, bæjarstjóra í Garði, með gjaldskrá ársins 2011.

Leikskólagjöld eru ekki hækkuð á milli ára, en það er gert til að koma til móts við ungar fjölskyldur og barnafólk. Því til viðbótar gerir áætlunin ráð fyrir að systkinaafsláttur af vistunartíma í leikskólanum hækki úr 25% í 50% með öðru barni en frítt verður fyrir þriðja barn. Áfram verða 4 klst. á dag gjaldfrjálsar fyrir leikskólabörn á seinasta leikskólaári. Foreldrar leikskólabarna á seinasta skólaári greiða því aðeins fyrir vistunartíma umfram 4 klst. á dag, ásamt gjaldi fyrir hressingu og hádegismat.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Síðasta ár hefur verið sveitarfélaginu erfitt, tekjur hafa lækkað og kostnaður allur hækkað og er svo komið að reksturinn kallar á auknar tekjur til að standa undir rekstri stofnana og þjónustu bæjarins. Farin verður blönduð leið hagræðingar og hækkunar gjaldskrár til að ná markmiðum um raunhæfa fjárhagsáætlun.

Niðurskurður og hækkun gjaldskrár og gjalda er nauðsynleg aðgerð ásamt því að greiða niður lán bæjarsjóðs. Launakostnaður lækkar á milli ára um 18.0 milljónir og annar rekstarkostnaður um 93.0 milljónir eða 111 milljónir frá árinu 2010. Af þeirri upphæð eru 35.0 milljónir sem eingöngu komu til á árinu 2010.

Í gjaldskrá 2011 er lagt til að útsvarsprósentan hækki í 13,28% til viðbótar kemur 1,2% vegna yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna alls 14,48%. Hækkun útsvars kemur eingöngu til eftir að tilkynnt var að þau sveitarfélög sem ekki nýttu ónotaða möguleika til hækkunar útsvars gætu staðið frammi fyrir lækkun framlaga úr Jöfnunarsjóði sem nam 74.0- milljónum á árinu 2010 til Sveitarfélagsins Garðs.

Gjaldstofn fasteignamats lækkar á árinu 2011 og hefur bæjarstjórn ákveðið að láta þá lækkun ganga til íbúðaeigenda og því lækkar fasteigarnskattur á milli ára.

Fyrir ellilífeyris- og 75% örorkuþega sem njóta tekjutryggingar er veittur tekjutengdur afsláttur af fasteignagjöldum.

Hádegismatur grunnskólabarna verður niðurgreiddur um 52% af útsöluverði eins og áður, en vegna nýs samnings við Skólamat ehf. hefur verð skólamáltíða staðið í stað frá síðasta ári.

Umönnunarbætur hækka um 3% og verða 25.750 kr. á mánuði. Fyrsta greiðsla er mánuðurinn sem barnið verður 10 mánaða og síðasta greiðslan er mánuðurinn sem það verður tveggja ára eða þar til innganga fæst í leikskóla. Umönnunargreiðslur eru ekki greiddar eftir að barni hefur verið boðið pláss á leikskóla.

Ferðastyrkur vegna framhaldsmenntunar til nemenda í dagskóla í framhaldsnámi sem ekki er unnt að stunda á Suðurnesjum hækkar um 3% og verður 25.750,- kr. á önn.

Skólagjöld Tónlistarskólans hækka um 3%. Þrátt fyrir þetta eru skólagjöld Tónlistarskólans með þeim lægstu á Suðurnesjum. Systkinaafsláttur er óbreyttur í Tónlistarskólanum eða 50%.

Gjaldskrá Íþróttahúss hækkar um 3% nema ljósabekkir sem hækka um 5%.

Önnur gjaldskrá Sveitarfélagsins hækkar um 3% eins og áður hefur komið fram.
Ljóst er að með gjaldskránni er reynt að hlúa að barnafjölskyldum og halda öllum hækkunum í algjöru lágmarki, segir í greinargerð bæjarstjóra.