Gistinóttum á hótelum Suðurnesja fjölgar
Gistinætur á hótelum í júní í ár voru 202.500 samanborið við 178.800 í júní 2011. Í júnímánuði voru 8.500 gistinætur á Suðurnesjum sem þýðir 11% aukningu frá því í fyrra. Mest fjölgar gistinóttum á Austurlandi eða um 19% en á Norðurlandi var minnst aukning eða 4%. Þó var aukning gistinótta í öllum landshlutum. Gistinætur erlendra gesta voru um 86% af heildarfjölda gistinátta í júní en gistinóttum þeirra fjölgaði um 13% samanborið við júní 2011. Á sama tíma fjölgaði gistinóttum Íslendinga einnig um 13%.
Athygli skal vakin á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.