Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gist í 22 húsum í Grindavík
Séð yfir Grindavík þiðjudagskvöldið 20. ágúst 2024. VF/Hilmar Bragi
Miðvikudagur 21. ágúst 2024 kl. 14:09

Gist í 22 húsum í Grindavík

Fáir Grindvíkingar kjósa að dvelja í bænum næturlangt en dvalið var í tuttugu og tveimur húsum síðastliðna nótt. Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri mælir alls ekki með því að dvalið sé í Grindavík yfir nótt og getur ekki ábyrgst öryggi þeirra við núverandi aðstæður. Þeim sem gista í Grindavík hefur fækkað á milli vikna en í síðustu viku var gist í á fjórða tug húsa.

Til að vekja athygli fólks á aðsteðjandi hættum hafa verið settar upp þrjár viðvörunarflautur í Grindavík. Þá er ein slík við Bláa lónið og önnur við HS orku í Svartsengi. Þær hafa verið notaðar með góðum árangri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lögreglustjóri hefur undanfarið gefið út tilkynningu í kjölfar þess að Veðurstofan uppfærir hættumatskort fyrir Grindavík og umbrotasvæðið við bæjardyrnar. Í tilkynningu lögreglustjóra kemur fram að áfram eru miklar líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni. Skjálftavirkni vex dag frá degi. Skýr merki um að þrýstingur er að aukast á svæðinu. Þróun í kvikusöfnun og landrisi hefur verið óbreytt síðustu daga. Rúmmál kviku undir Svartsengi meira en fyrir síðustu eldgos.

Tilefni er til þess að hafa áhyggjur af því að hraun geti náð inn fyrir varnargarða við Grindavík. Þannig er möguleiki á að hraun sem kæmi upp úr gosopi norðan varnargarða ofan bæjarins geti leitað ofan í sprungukerfi sunnan Hagafells og leitt hraunstraum inn fyrir bæjarmörkin. Þá er ekki hægt að útiloka að gossprunga geti opnast inn í Grindavík.

Lögreglustjóri tekur skýrt fram að Grindavík er ekki staður fyrir barnafólk eða börn að leik. Lögreglustjóri mælir alls ekki með því að íbúar dvelji í bænum. Svæði með óásættanlegri áhættu er sýnt á meðfylgjandi korti. Svæði austan Víkurbrautar og norðan Austurvegar. Það eru tilmæli frá lögreglustjóra að þar dvelji enginn að næturlagi.

Viðbragðsaðilar eru við störf í Grindavík og lögregla og slökkvilið sinna lögbundnu eftirliti í bænum eins og verið hefur. Þá er sjúkrabíll staðsettur í Grindavík alla daga á dagtíma.

Starfsemi er í Bláa lóninu og hjá Northern Light Inn að höfðu samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum. Á starfssvæði Bláa Lónsins er nú þéttriðið net gasmæla. Þá er veðurstöð staðsett á einni bygginu Bláa Lónsins. Eftirlit og viðbagð við hugsanlegri gasmengun er nú með allt öðrum hætti en áður hefur verið á starfssvæði Bláa Lónsins.