Getur gerst hraðar og orðið miklu stærra en núverandi gos
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir að búast megi við fleiri eldgosum á Reykjanesskaganum á næstu áratugum. Í viðtali í Víkurfréttum í þessari viku segir hann að við verðum að búa okkur undir að takast á við atburði sem geta gerst miklu hraðar og orðið miklu stærri en núverandi gos í Fagradalsfjalli.
„Við erum komin inn í aðra röð eldgosa á Reykjanesskaga. Nú er spennusviðið sem ræður hvernig hlutirnir gerast á Reykjanesskaganum komið í þannig ástand að það hentar kviku til að komast til yfirborðs. Spennudreifingin á Reykjanesskaganum er í góðum gír fyrir eldgos en hefur ekki verið það undanfarin 7-800 ár. Eitthvað hefur breyst en ég þori ekki að fullyrða nákvæmlega hvað það er en á næstu áratugum munum við fá fleiri gos á Reykjanesskaga. Ekki þá bara við Fagradalsfjall, heldur á öðrum stöðum á Reykjanesskaganum og hugsanlega þegar yfir er staðið erum við búin að fá gos eftir öllum endilöngum Reykjanesskaga,“ segir Þorvaldur í viðtalinu.
Aðspurður um hvort þetta gos sé ekki góð áminning um að horfa betur í kringum okkur varðandi innviði sagði Þorvaldur: „Jú, þetta er besta viðvörum sem við gátum fengið. Þetta er lítið gos og aðgengilegt. Við erum með fullt af mælum og getum mælt allt sem tengist þessu og við getum notað þetta gos til að læra hvernig á að bregðast við t.d. hraunflæði á ákveðnum stöðum, mengun á ákveðnum stöðum og þar fram eftir götunum. Við getum búið okkur undir og verið betur undirbúin að takast á við atburði sem geta gerast miklu hraðar en þessi atburður og vera miklu stærri. Þetta var eins og best var á kosið þannig séð.“
Þorvaldur er einnig í ítarlegu viðtali við Suðurnesjamagasín VF á Hringbraut og vf.is á fimmtudagskvöld kl. 19:30.