Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 19. september 2000 kl. 14:21

Getum lært mikið af Íslendingum, sagði viðskiptaráðherra Kína

Viðskiptaráðherra Kína, Frú Wu Yi, heimsótti Reykjanes í síðustu viku og kynnti sér aðstæður og atvinnulíf á svæðinu. Hún átti fund með Ellerti Eiríkssyni bæjarstjóra, í Eldborg en hann heimsótti Shanghai borg í vor, ásamt forsvarsmönnum nokkurra fyrirtækja frá Suðurnesjum. Kínverjar sjá mikla möguleika á samstarfi við Íslendinga á sviði orkumála, hugbúnaðar og sjávarútvegs. Í fylgdarliði viðskiptaráðherra voru um fjörutíu forstjórar kínverskra fyrirtækja sem komu hingað til að stofna til viðskiptasambandi. Frú Wu Yi dvaldi aðeins í nokkrar klukkustundir á Reykjanesi í upphafi opinberrar heimsóknar sinnar til Íslands. Henni var tíðrætt um hversu þróað land Ísland væri, þrátt fyrir að það væri mun minna en Kína. Hún sagði Kínverja geta lært margt af Íslendingum og það vakti aðdáun hennar hvernig Íslendingar nýttu jarðhitann. Megintilgangur heimsóknar Frú Wu Yi var að kanna hvernig hægt væri að auka viðskiptatengsl Kína og Íslands. „Við getum lært mikið af ykkur. Ísland er lítið land sem hefur tekist að iðnvæðast. Ísland er mjög þróað hvað varðar nýtingu á fiskveiðiauðlindum og jarðhita. Hér er einnig mjög þróaður hugbúnaðariðnaður og ég tel vera mikla möguleika á samvinnu á þessum sviðum. Í sendinefnd minni eru iðnrekendur sem eiga eflaust eftir að reyna að koma á viðskiptum við íslensk fyrirtæki“, sagði Frú Wu Yi. Wu var spurð að því hvort menningarmunur gæti verið hindrun í efnahagslegri samvinnu landanna tveggja. Hún sagði svo ekki vera. „Kína er opið í dag og við höfum þegar hafið samvinnu við Íslendinga á sviði orkunýtingar. Íslendingar hafa þjálfað 44 einstaklinga sem eru sérfræðingar í orkumálum. Ég tel það vera sterkan bakgrunn fyrir okkur. Við erum nú að byggja 20 fiskiskip fyrir Íslendinga. Þess má geta að viðskipti Íslands og Kína jukust mjög á tímabilinu janúar/ágúst á þessu ári“, sagði Frú Wu Yi. Markaðs- og atvinnumálaskrifstofan var með kynningu á markaðstækifærum á Reykjanesi og Albert Albertsson kynnti Hitaveitu Suðurnesja. Ólafur Kjartansson framkvæmdastjóri MOa sagði að starfsmenn MOA fögnuðu hverju tækifæri sem gefst til að kynna Reykjanes fyrir innlendum og erlendum aðilum, hvort sem um er að ræða kynningar á sviði viðskipta, ferðamála eða menningar. „Móttaka erlendra gesta og kynningar eru sífellt að verða fyrirferðameiri í okkar daglega starfi sem gefur okkur tækifæri til að leggja mismunandi áherslur á málefni. Í þessu tilfelli var áhersla lögð á jarðhitanýtingu. Það er ljóst að heimsókn Frú Wu Yi getur haft mikla þýðingu fyrir okkur þar sem hún er mjög hátt sett í kínversku viðskiptalífi“, sagði Ólafur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024