Getum fengið annað kvikuhlaup eftir mánuð
Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri hjá Veðurstofu Íslands, fór yfir stöðu mála eins og hún er í dag á íbúafundi með Grindvíkingum í gær. Hún sagði að síðan á sunnudag höfum við verið að horfa upp á svipaðan atburð og átti sér stað í desember. Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og með sama áframhaldi getum við verið að horfa upp á annað kvikuhlaup eftir um mánuð.
Atburðurinn á sunnudag hafi meðal annars myndað nýjan sigdal austar í bænum. Hann væri 700–800 metra breiður og rúmur einn metri á dýpt. Í atburðinum á sunnudag hafi líka myndast sprungur utan við þennan sigdal og nú væru bæði austur- og vesturhluti byggðarinnar í Grindavík sprunginn. Myndast hafa fleiri sprungur í bænum og sprungur sem fyrir voru hafa dýpkað.
Kristín sagði á fundinum að þegar horft væri til næstu ára þá væru endurtekin kvikuhlaup inn í þessar sprungur. Hún áréttaði að ekki væri vitað hvað framtíðin bæri í skauti sér og óvissa væri í tímaskala.
Kristín sagði að það gæti komið eitt stórt gos eða ítrekuð gos svipað því sem varð á sunnudaginn. Hún sagði að við værum á upphafsárum nýrrar hrinu jarðvár á Reykjanesskaga og þar væri vitað að virkni væri ekki á tveimur stöðum á sama tíma.