Gestir Duushúsa 45 þúsund á liðnu ári
Ekki verður annað sagt en að Duushúsin lista- og menningarmiðstöð Reykjanesbæjar hafi iðað af lífi á liðnu ári en þangað lögðu ríflega 45.000 gestir leið sína sem er 3% aukning frá fyrra ári.
Meðal viðburða sem þar fóru fram má nefna að 5 nýjar listsýningar litu dagsins ljós í Listasal. Meðal þeirra var sýning Ingu Þóreyjar Jóhannsdóttur, „Flökkuæðar - loftfar" sem valin var ein af bestu sýningum ársins af listgagnrýnendum Morgunblaðsins. Byggðasafn Suðurnesja hleypti af stokkunum sýningunni „Völlurinn" við góðar viðtökur en þar segir frá áhrifum varnarliðsins á samfélagið í kring.
Þá er vert að geta hátíðanna Safnadaga á Suðurnesjum, Listahátíðar barna og Listar án landamæra sem drógu að sér á þriðja þúsund gesta. Á Ljósanótt fór að venju fram ríkuleg tónlistardagskrá í húsunum og þá helgi litu við 18.500 manns. Meðal annarra viðburða á árinu er gaman að geta Sjómannadagsmessu, Erlingskvölds, málstofu um Eggert Guðmundsson listmálara, fyrirlesturs um nútímamyndlist, listamannsleiðsagna, Bókakonfekts, jólaleikrits barnanna, afhendingar menningarverðlauna og dagskrár tengdri Skessudögum.
Nemendaheimsóknir voru fjölmargar á liðnu ári og fjölgar jafnt og þétt en um 4.500 nemendur lögðu leið sína í húsin ýmist til að skoða söfnin með leiðsögn eða sækja þangað ýmsa viðburði. Þá var tónleikahald áberandi í starfsemi Duushúsanna en mikið af tónleikum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar eru haldnir þar. Þannig sóttu um 5.000 manns tónleika á liðnu ári. Meðal tónleika sem haldnir voru má nefna tónleika Norðuróps, Óp-hópsins, Bubba, KK og Magga, Gunnars Þórðarsonar, Kvennakórs Suðurnesja, Sönghóps Suðurnesja og Ragnheiðar Gröndal. Þá er húsið vel nýtt undir fundarhöld og ráðstefnur.