Gervitunglamynd sýnir þrýsting og kvikuganginn stækka
- Möguleikinn á eldgosi verður alltaf líklegri, eftir því sem líður á
Gervitunglamynd sem barst Veðurstofu Íslands í gærkvöldi sýnir að kvikugangurinn milli Keilis og Fagradalsfjalls er að stækka og það er að byggjast upp þrýstingur í honum. Þetta hefur mbl.is eftir Kristínu Jónsdóttur, fagstjóra á sviði náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands.
Heildarfjöldi jarðskjálfta í hrinunni sem staðið hefur í hálfan mánuð fór yfir 34.000 í morgun. Það sem af er þessum sólarhring hafa orðið þrír öflugir skjálftar. Sá stærsti var upp á M5,0 í nótt. Annar upp á M4,6 varð rétt fyrir kl. 09 í morgun og þriðju skjálftinn sem fór yfir fjóra varð núna um kl. 15 í dag. Sá mældist M4,3 og varð 2,3 km. SSA af Fagradalsfjalli.
Kristín segir gervitunglamyndina benda til þess að það sé frekar stöðugt flæði kviku inn í kvikuganginn. „Síðan bregst jarðskorpan þannig við að það verður hrinukennd jarðskjálftavirkni og einstaka sinnum stærri skjálftar,“ segir hún í viðtalinu við mbl.is.
Hún segir að á meðan þetta er í gangi þurfi að gera ráð fyrir að gera ráð fyrir að líkurnar á gosi aukist. „Auðvitað er þetta búið að standa yfir í nokkra daga og við erum ekki að sjá nein merki þess að þessu muni linna. Möguleikinn á eldgosi verður alltaf líklegri, eftir því sem líður á,“ segir Kristín Jónsdóttir í fréttinni.