Fréttir

Gervitunglamynd sýnir að hraunið flæddi lengst um 4,5 km í vestur frá gosstöðvunum
Fimmtudagur 8. febrúar 2024 kl. 21:56

Gervitunglamynd sýnir að hraunið flæddi lengst um 4,5 km í vestur frá gosstöðvunum

Áfram hefur dregið úr krafti gossins en nú gýs á tveimur til þremur stöðum á gossprungunni. Sprengivirkni sem hófst á milli kl. 13 og 14 í dag er að mestu lokið, en ennþá sjást minniháttar gufustrókar stíga upp á stöku stað á sprungunni. Þetta kom fram í tilkynningu frá Veðurstofunni síðdegis.

Samhliða því að dró úr ákafa gossins þá minnkaði aflögunarmerki í kvikuganginum. Það bendir til þess að kvika sé ekki lengur að koma upp undir jafnmiklum þrýstingi og í upphafi. Fljótlega eftir að gosið hófst minnkaði skjálftavirkni verulega og hefur verið minniháttar í dag, en um 20 smáskjálftar hafa mælst yfir kvikuganginum síðan kl. 8 í morgun.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Á  kortinu hér að neðan sést hraunbreiðan eins og hún var á gervitunglamynd sem tekin var kl. 12:31 í dag. Þar sést að hraunið flæddi lengst um 4,5 km í vestur frá gosstöðvunum. Til samanburðar er hraunbreiðan sem myndaðist í eldgosinu í desember 2023 einnig sýnd á kortinu. Hraunið sem hefur myndast í dag rennur að hluta til yfir hraunbreiðuna sem myndaðist í desember.