Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gert ráð fyrir ríkisframlagi – óvíst hvort það komi
Fimmtudagur 3. desember 2009 kl. 13:52

Gert ráð fyrir ríkisframlagi – óvíst hvort það komi


Áætlanir Reykjaneshafnar gera ráð fyrir að fyrst árið 2015 verði tekjur hennar umfram fjármagnsgöld. Ef ríkisframlag kemur ekki mun arðbærni minnka um 1,5 milljarð og fresta hagnaði fjárfestingar til greiðslu lána um allt að fimm ár.
Þetta kemur fram í skriflegum svörum Árna Sigfússonar, bæjarstjóra, Reykjanesbæjar við fyrirspurnum Ólafs Thordersen, bæjarfulltrúa A-lista.
Skuldir hafnarinnar nú í árslok eru um 4,8 milljarðar króna og er þá miðað við ógreitt ríkisframlag upp á 836 milljónir króna.

Í október síðastliðnum kölluðu bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ eftir svörum frá ríkisvaldinu hvort það ætlaði að koma að þeim viðamiklu hafnarframkvæmdum sem standa fyrir dyrum í Helguvík og taldar eru nauðsynlegar vegna álversins. Haft var eftir samgönguráðherra í fjölmiðlum að ekkert fjármagn hafi verið eyrnamerkt framkvæmdinni enda kæmi ríkið ekki að hafnarframkvæmdum sem þessum. Vísaði ráðherra í hafnarlög frá 2003 í því sambandi.

Framkvæmdin í heild mun kosta  2,8 milljarða króna og hefur komið fram að Reykjanesbær telur sig hafa fengið loforð frá fyrri yfirvöldum í þá veru að ríkið greiddi allt að helmingi framkvæmdakostnaðar. Núverandi yfirvöld telja sig hins vegar ekki bundin af þeim loforðum, eins og skilja má af ummælum samgönguráðherra.

Ekki hefur tekist að ljúka við langtímafjármögnun hafnarinnar eins og fjárhagsáætlun 2009 gerði ráð fyrir. Reykjanesbær hefur aðstoðað höfnina með skammtímaláni til að létta undir afborgunum lána og verktakagreiðslum.

Áætlað er að höfnin fari að skila hagnaði árið 2015 til að greiða niður skuldirnar eins og áður segir en tekjurnar muni koma af vörugjöldum, skipagjöldum, almennum þjónustugjöldum, lóðargjöldum, lóðarleigu og fasteignasköttum.
---

Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Horft yfir Helguvíkurhöfn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024