Gert ráð fyrir 934 milljónum í afgang hjá Reykjanesbæ
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2018 til og með 2022 var samþykkt með öllum atkvæðum bæjarfulltrúa á bæjarstjórnarfundi 5. desember sl. Er þetta í fjórða sinn á kjörtímabilinu sem full samstaða er um fjárhagsáætlun. Áætlunin er til 2022 til samræmis við aðlögunaráætlun Reykjanesbæjar sem gildir til og með árinu 2022 og fjárhagsáætlun þarf að taka mið af.
Nokkrar breytingar urðu á A hluta bæjarsjóðs á milli fyrri umræðu og seinni umræðu og fór Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri yfir þær breytingar á bæjarstjórnarfundinum. Áætlað er að tekjur A-hluta bæjarsjóðs verði 13,905 milljarðar en gjaldaliðir 12,272 og framlegðin því 1633 milljónir. Aðrir liðir eru óbreyttir. Rekstrarniðurstaða A-hluta bæjarsjóðs eftir fjármagnsgjöld og afskriftir er áætluð rúmlega 394 milljónir.
Forsendur fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar fyrir árin 2018 til og með 2022 eru að mestu leyti byggðar á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem birtist í maí 2017.
Nokkrir óvissuþættir eru í áætlun, s.s íbúaþróun til næstu ára, sem hefur verið fordæmalaus á undanförnum mánuðum og meiri en annarsstaðar, breytingar í starfsemi Helguvík varðandi stóriðjur, skipakomur og fleira henni tengdu.
Gert er ráð fyrir að helstu niðurstöður í A og B hluta árið 2018 verði þessar:
Að tekjur samstæðunnar verði tæpur 21 milljarður króna. Að gjöldin verði rúmlega 16 milljarða króna. Framlegð verður því 4,6 milljarða króna. Afskriftir í samstæðunni verði 1.333 milljónir króna. Niðurstaða án fjármagnsliða verði rúmlega 3,2 milljarða króna. Að teknu tilliti til fjármagnsgjalda og hlutdeildar minnihluta og óreglulegra liða og tekjuskatts þá verði rekstrarniðurstaða samstæðunnar 934 milljónir í afgang.
Meðal helstu verkefna ársins 2018 eru:
Aukin áhersla á viðhald gatna. Framkvæmdir við fyrsta áfanga Stapaskóla í Dalshverfi. Ný vinnubrögð vegna breytingar á persónuverndarlöggjöf. Nýtt launakerfi. Efling þjónustu við aldraða, m.a. með auknu samstarfi við heilbrigðisþjónustuna, Félag eldri borgara og Öldungaráð Suðurnesja. Fjölgun stíga, gönguleiða og opinna svæða. Færa Rokksafn Íslands nær nútímanum. Flutningur heilsuleikskólans Háaleitis í nýtt húsnæði og fjölgun deilda. Stækkun Háaleitisskóla í kjölfarið. Bætt þjónusta í íþrótta- og tómstundarmálum, m.a. hærri hvatagreiðslur og þjálfarastyrkir. Aukið samstarf barnaverndar og fræðsluskrifstofu vegna barna sem glíma við skólaforðun. Innleiðingar, þróun og eftirfylgni eignarskrár og birgðakerfis.
Opinn íbúafundur um fjárhagsáætlunina verður haldinn miðvikudaginn 13. desember í Bíósal DUUS Safnahúsa kl. 17:30-19:00. Á fundinum verður farið yfir stöðuna og m.a. kynna helstu áherslur einstakra sviða á næsta ári. Þar gefst kjörið tækifæri til að kynna sér þessi mikilvægu mál betur.