Gerðu tillögu um Grétar Sigurbjörnsson í starf hafnarstjóra
Magnús Sigfús Magnússon, bæjarfulltrúi H-listans í sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis, lagði fram tillögu frá fulltrúum H - lista á síðasta fundi bæjarstjórnar sveitarfélagsins að Grétar Sigurbjörnsson yrði ráðinn hafnarstjóri Sandgerðishafnar. Samþykkt var samhljóða á fundi hafnaráðs þann 17. október að Rúnar V. Arnarson verði ráðinn hafnarstjóri Sandgerðishafnar og lagt til við bæjarstjórn að staðfesta ráðninguna en fundargerðin var til afgreiðslu bæjarstjórnar í síðustu viku.
Tillaga H-listans var svohljóðandi: „Tillaga um að ráða Grétar Sigurbjörnsson sem hafnarstjóra við Sandgerðishöfn. Grétar hefur starfað sem staðgengill hafnarstjóra undanfarin ár og sinnt því starfi með sóma. Grétar var við störf þegar allt viðhald og framkvæmdir voru í lágmarki vegna fjárhagsstöðu Sandgerðisbæjar, og leysti úr öllum þeim uppákomum með sóma og án kvartana frá viðskiptavinum hafnarinnar. Grétar hefur starfað sem yfirmaður á Sandgerðishöfn í tæp tíu ár og engar kvartanir á hann bornar vegna starfanna. Er hægt að hafa betri meðmæli en þessi“.
Gert var hlé á fundi bæjarstjórnar í kjölfar tillögunnar en Magnús óskaði eftir fundarhléi til að lesa gögn um umsækjendur um stöðu hafnarstjóra.
Eftir fundarhlé var tillaga H-listans felld með 6 atkvæðum D- og J-lista á móti tveimur atkvæðum H-lista. Fulltrúi B-lista sat hjá við afgreiðslu. Þá var samþykkt með 6 atkvæðum, D- og J-lista gegn tveimur atkvæðum H-lista, að Rúnar V. Arnarson verði ráðinn hafnarstjóri Sandgerðishafnar. Fulltrúi B-lista sat hjá við afgreiðslu málsins.
Rúnar V. Arnarson hefur verið ráðinn hafnarstjóri Sandgerðishafnar.