Gerðaskóli fær tölvuskjái að gjöf frá Landsbankanum
Landsbankinn gaf á dögunum Gerðaskóla í Garði sextán tölvuskjái að gjöf. Skjáirnir voru ekki lengur í notkun í bankanum en voru nýlegir og í góðu ástandi.
Jóhann Geirdal, skólastjóri Gerðaskóla, segir að gjöfin komi sér einstaklega vel því tölvubúnaðurinn í skólanum hafi verið úr sér genginn.
„Við vorum að endurnýja tölvuverið og gjöfin varð til þess að við gátum keypt fleiri nýjar tölvur þar sem við þurftum ekki að kaupa nýja skjái,“ segir Jóhann.
Alls hefur Landsbankinn gefið 75 tölvuskjái til grunnskóla og félagasamtaka víða um land á undanförnum vikum.