Gerðaskóli: Áhersla á raungreinar með fullkominni kennsluaðstöðu
Raungreinakennsla verður í hávegum höfð í Gerðaskóla þegar lokið verður við stækkun á skólahúsnæðinu í Garði. Þar verður m.a. innréttuð fullkomin raungreinastofa sem lengi hefur verið beðið eftir. Kennslustofan verður útbúin með sérstökum fuglaskoðunarturni og þar verður einnig útivinnuaðstaða. Úr kennslustofunni verður greið leið að Síkinu í Garði þar sem nemendur geta sótt skordýr og jurtir til rannsóknar. Þá er ekki langt í fjöruna og móann með öllu því lífi sem þar er að finna. Í raungreinastofunni verður einnig veðurathugunarstöð, svo eitthvað sé nefnt.
Oddný Harðardóttir, bæjarstjóri í Garði, segir að það sé vilji til þess að Gerðaskóli leggi mikla áherslu á raungreinakennslu og skapi sér sérstöðu á því sviði. Kennslustofan er ætluð gunnskólabörnum á öllum aldursstigum.
Nú eru hafnar framkvæmdir við stækkun Gerðaskóla þar sem bætt er við átta kennslustofum. Sex þeirra eru almennar kennslustofur, en síðan er það raungreinastofan og myndmenntastofa. Á þessu ári verða fjórar stofur teknar í notkun, auk þess sem byggt verður yfir stórt port við skólann og þar innréttaður samkomusalur nemenda.
Á næsta ári verða allar átta stofurnar komnar í gagnið. Þá verður bókasafn skólans, sem jafnframt er bæjarbókasafnið í Garði, flutt í nýtt og betra rými innan skólans. Þá verður nýtt skólaeldhús innréttað, ásamt tölvuveri og tónmenntastofu. Breytingum á skólanum á svo að ljúka árið 2011 með því að tónlistarskólinn flytur starfsemi sína í skólann og tekin verður í notkun ný kennaraaðstaða.
Segja má að Gerðaskóli sé alveg sprunginn í dag og nemendum má ekki fjölga mikið svo horfi til vandræða. Þó svo breytingum sé ætlað að ljúka árið 2011, þá liggja þegar fyrir teikningar af átta kennslustofum til viðbótar en þá verður skólinn samtengdur íþróttahúsinu og sundlauginni. Gerðaskóli er hugsaður fyrir 500 nemendur og allar þær breytingar sem gerðar eru á skólahúsnæðinu miðast við þann nemendafjölda. Nemendur í dag eru hins vegar 245, þannig að skólinn ætti að vera vel í stakk búinn að taka við frekari fjölgun á næstu árum.
Á þessu ári áætlar sveitarfélagið að verja um hálfum milljarði króna í framkvæmdir við skólann, s.s. nýbyggingar og skólalóð, en allt umhverfi skólans verður endurskoðað og lagfært á árinu.
----
Mynd: Frá framkvæmdum við nýbyggingu Gerðaskóla.