Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gerðaskóli á grænni grein
Mánudagur 16. október 2006 kl. 09:46

Gerðaskóli á grænni grein

Gerðaskóli í Garði hefur gengið til liðs við verkefnið "Skólar á grænni grein" sem er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Þeir skólar sem vilja komast á græna grein í umhverfismálum leitast við að stíga skrefin sjö. Þegar því marki er náð fá skólarnir leyfi til að flagga Grænfánanum næstu tvö ár en sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.

Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Jafnframt sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.

Umhverfisnefnd Gerðaskóla hefur haldið reglulega fundi og nú síðast fékk hún framkvæmdastjóra Landverndar, Berg Sigurðsson, á fund til að fræða umhverfisnefndina betur um verkefnið og gefa ráðleggingar. Á fundinum voru fulltrúar kennara, fulltrúi foreldra, fulltrúi skólaliða og skólastjóri. Nú er verið að vinna að því að fá fulltrúa nemenda á öllum aldri til að sitja í umhverfisnefndinni og hafa þeir töluvert vægi því mikilvægt er að fá hugmyndir frá þeim og þeir eru góður tengiliður milli nefndarinnar og nemenda.

 

Frá þessu er greint á vef Sveitarfélagsins Garðs.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024