Gerðardómi vegna Helguvíkur frestað í fjórða sinn
Gerðardómur í deilu Norðuráls og HS Orku hefur enn einu sinni frestað úrskurði sínum, að þessu sinni til 31. desember. Dómendur taka þó fram að þeir muni ekki biðja um frekari frest og að þeir muni kveða upp úrskurð sinn vegna orkusamnings álversins í Helguvík áður en árið er liðið. Frá þessu er greint á visir.is.
Þetta er í fjórða sinn sem úrskurður frestast en upphaflega stóð til að að hann yrði kveðinn upp í lok júlímánaðar. Í maímánuði var úrskurði frestað út september, síðan út október, svo til nóvemberloka og nú til loka desember.
Fresturinn er að ósk dómaranna, sem hafa metið deilumál HS Orku og Norðuráls það viðamikið að kallað hafi á lengri tíma. Gerðardómurinn er skipaður af verslunardómstólnum í Stokkhólmi. Í honum sitja þrír dómarar; Bandaríkjamaður, Breti og Kanadamaður.
Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi en áætlað er að heildarfjárfesting vegna álversins og orkumannvirkja verði um 400 milljarðar króna. Fyrsta skóflustunga að álverinu var tekin sumarið 2008 og hófust framkvæmdir þá um haustið um líkt leyti og bankakerfið hrundi. Þær hafa síðan verið í hægagangi en áætlað er að smíði álversins kalli á um fjögur þúsund ársverk. Þegar rekstur hefst verða til um 600 störf í álverinu en auk þeirra er áætlað að skapist 800 til 1.000 bein afleidd störf.