Gera ráð fyrir nýjum sjótökuholum í nýju skipulagi
HS Orka hefur óskað eftir að breyta deiliskipulagi iðnaðar- og orkuvinnslusvæðis á Reykjanesi. Tilgangur breytinga er að gera ráð fyrir nýjum sjótökuholum. HS Orka vinnur jafnframt að matsskyldufyrirspurn til Skipulagsstofnunar vegna þessara framkvæmda.
Tillaga HS Orku hefur verið auglýst og engar athugasemdir bárust. Niðurstaða Skipulagsstofnunar um matsskyldufyrirspurn var að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Óskað var umsagna viðeigandi stofnana. Engar efnislegar athugasemdir voru gerðar. Náttúrufræðistofnun vekur athygli á tillögum Skipulagsstofnunarinnar um verndarsvæði náttúruminjaskrár (B-hluta) vegna fjöruvistgerða við Öngulbrjótsnef, klóþangsfjörur og áréttar að stofnunni er er ekki kunnugt um hvort útfallið úr bunustokki Reykjanesvirkjunar, hvort sem það er breyting í efnasamsetningu eða hitastigi, hafi áhrif á þessar fjöruvistgerðir.
Samþykkt var á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar að senda skipulagið til Skipulagsstofnunar til endanlegrar afgreiðslu.