Gengur brennuvargur laus í Reykjanesbæ?
Rannsóknarlögreglumanna lögreglunnar á Suðurnesjum bíður nú að finna brennuvarg eða brennuvarga sem ganga lausir í Reykjanesbæ. Slökkviliðsmenn Brunavarna Suðurnesja hafa farið í tvö útköll í dag í hús þar sem nær öruggt má telja að kveikt hafi verið í.
Nú undir miðnætti var slökkviliðið kallað að byggingu við Hafnarbraut í Njarðvík þar sem áður var birgðastöð Olís í Reykjanesbæ. Smiðir hafa síðustu misseri haft aðstöðu í húsinu fyrir verkfæri og annað.
Talsvert rauk úr þaki hússins þegar að var komið en enginn eldur sást stíga upp frá húsinu. Tilkynningin sem barst var um að sprengingar höfðu heyrst frá húsinu og skömmu síðar mátti sjá reyk stíga upp frá byggingunni.
Reykkafarar fóru um bygginguna og fundu eldsupptök í einu horni hússins. Þar var mikið brunnið og eldurinn hafði náð upp í loft hússins. Mikill hiti var inni í öllu húsinu en þar sem neglt var fyrir alla glugga og húsið mjög þétt, þá var eldurinn koðnaður niður að mestu þegar slökkviliðið kom á staðinn. Það þurfti þó að rífa frá gluggum og rjúfa gat á þak til að hleypa út hita.
Eigendur hússins höfðu verið þar síðast á gamlársdag.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson - fréttavakt í síma 898 2222 allan sólarhringinn.
Fjölmennt slökkvi- og lögreglulið mætti á vettvang við Hafnarbraut í Njarðvík í kvöld.
Fyrsti dagur nýs árs að kvöldi kominn og slökkviliðsmenn búnir að fást við tvo bruna þann daginn.
Það rauk talsvert úr þaki hússins. Hér hefur reykurinn minnkað talsvert.