Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gengu um eins og svín og reyndu að kveikja í skógrækt
Mánudagur 17. ágúst 2009 kl. 18:36

Gengu um eins og svín og reyndu að kveikja í skógrækt


Félagar í Skógræktarfélagi Grindavíkur fengu áfall þegar þeir mættu í Selskóg í gær, útivistarparadís Grindvíkinga við Þorbjarnarfell, því aðkoman var hroðaleg. Greinilegt er að nokkrir aðilar höfðu hreiðrað um sig í skóginum í tjaldi, gengu um eins og svín og af verksummerkjum að dæma reyndu þeir að kveikja í skóginum og eyðilögðu auk þess töluvert af nýjum og viðkvæmum gróðri með því að aka yfir viðkvæmasta svæðið líkt og um rallökubraut væri að ræða. Frá þessu er greint á vef Grindavíkurbæjar, www.grindavik.is

Fulltrúar Skógræktarfélagsins sögðust aldrei hafa séð neitt þessu líkt og hefur umgengni um skóginn oft verið slæm. Skemmdarvargarnir gistu í tjaldi sem þeir skildu eftir. Tjaldið er ekki af ódýrustu gerðinni og þar inni var hellingur af tómum bjórdósum og kælibox með nokkrum bjórum sem ekki var búið að opna. Auk þess var vindsæng í tjaldinu og annað dót. Þá voru teknar hjólbörur og þær notaðar undir kol til að grilla mat en þess má geta að þarna skammt frá er prýðis grill sem gestir í Selskógi geta notað. Búið var að henda ruslapokum inn í skóginn og þar lágu einnig dósir og drasl út um allt og jafnframt búið að brjóta veggi inni í skúrnum sem þarna er. Verkfæri voru eyðilögð og urðu eldi að bráð og þá fannst kúbein á svæðinu.

Alvarlegast var þó að reynt var að kveikja í einu tré en það mistókst. Ekki er að sökum að spyrja ef eldur hefði læst sig í trénu því þá hefði sá hluti skógarins sem er fyrir neðan veginn fuðrað upp því mikill þurrkur hefur verið síðustu daga.

Lögreglan var kölluð á vettvang og rannsakar hún málið. Grindvíkingar sem hugsanlega voru á rölti við Selskóg um helgina eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við lögreglu því minnstu upplýsingar gætu komið að góðum notum við rannsókn málsins.

- sjá nánar á www.grindavik.is


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024