Gekk berserskgang með hafnarboltakylfu í Reykjanesbæ
Ungur maður gekk berserskgang með hafnarboltakylfu í Reykjanesbæ í morgun. Hann braut rúður í fjórum bílum og einu íbúðarhúsi áður en lögreglan handtók hann, Fólki sem varð vitni að ofsa mannsins var mjög brugðið. Maðurinn var í annarlegu ástandi og verður yfirheyrður þegar af honum bráir. Frá þessu er greint á mbl.is.
Tilkynnt var um mann sem færi hamförum með hafnarboltakylfu í Njarðvík klukkan 7.40 í morgun. Lögreglan í Reykjanesbæ fór þegar á vettvang. Þegar lögreglumenn voru komnir á staðinn mundaði maðurinn kylfuna og braut rúðu í einum bílanna að lögreglunni ásjáandi.
Lögreglan dró þá upp kylfur og táragas og henti maðurinn þá hafnarboltakylfunni frá sér og var handtekinn. Hann var samt nokkuð æstur og talinn vera í annarlegu ástandi, að sögn lögreglunnar, hugsanlega af völdum fíkniefna.
Einn bílanna sem maðurinn réðist á var að sækja menn til vinnu. Um er að ræða sjö manna fólksbíl. Maðurinn braut tvær hliðarrúður í bílnum og gengu glerbrotin yfir mennina sem sátu í honum. Þeim var talsvert brugðið við árásina, sem vænta má. Mennirnir í bílnum höfðu aldrei séð árásarmanninn áður.
Að sögn lögreglunnar var maðurinn æfur en reiði hans beindist ekki að neinum tilteknum einstaklingum heldur lét hann kylfuna ganga á það sem fyrir varð. Enginn meiddist í atganginum en margir urðu vitni að framferði mannsins.
Lögreglan sagði að fólkinu sem horfði á þetta hafi verið verulega brugðið.