Geitungabú á körfubolta
„Geitungabúin eru oft á ýmsum stöðum en að velja körfubolta er líklega það skrýtnasta sem ég hef séð,“ segir Ragnar Guðleifsson, meindýraeyðir þegar hann sýndi blaðamanni geitungabú sem var fast ofan á körfubolta sem hafði verið úti í garði á heimili í Reykjanesbæ.
Ragnar hló þegar hann var spurður hvort þetta hafi verið körfuboltageitungar en það sé kannski ekki skrýtið í ljósi vinsældar íþróttarinnar á Suðurnesjum. Sjá mátti nokkur bú í bíl Ragnars sem hann hafði eytt síðustu daga en meindýraeyðirinn mætir vopnaður sérstöku eitri í brúsa sem hann spreyjar yfir búið. Þegar hann er búinn að því er búið dautt innan tuttugu sekúndna.
Á veraldarvefnum kemur fram að geitungar séu félagsskordýr. Þeir byggja bú úr pappírskvoðu sem þeir fá með því að naga timbur. Í hverju geitungabúi er ein drottning og mörg hundruð vinnugeitungar. Drottningin verpir eggjum í sérstök hólf. Úr eggjunum þroskast lirfur sem síðan verða að púpum. Úr púpunum skríða aðeins vinnugeitungar yfir sumartímann. Vinnugeitungar annast lirfur og viðhalda búinu. Yfir vetrartímann liggja geitungadrottningar í dvala. Hér á landi fara þær yfirleitt aftur á kreik seinnihlutann í maí og leggja þá drög að byggingu bús á hentugum stað. Geitungabúið er síðan „lifandi“ oftast vel inn í ágúst og september en þá afleggur drottningin búið og íbúar þess flosna upp frá því. Á haustin verða til nýjar drottningar sem lifa af veturinn.