Geirmundur sýknaður
Geirmundur Kristinsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri í Keflavík var sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness en dómur var kveðinn upp í morgun. Geirmundur var ákærður um umboðssvik í tveimur liðum og ákæruvaldið krafðist þess að hann yrði dæmur til að sæta óskilorðsbundinni fangelsisrefsingu, ekki skemur en til fjögurra ára.
Geirmundur lýsir yfir mikilli ánægju með niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness, og telur niðurstöðuna að öllu leyti í samræmi við gögn og staðreyndir málsins. Þetta segir Grímur Sigurðsson, verjandi Geirmundar, í skriflegu svari til mbl.is. Ekki liggur fyrir hvort ákæruvaldið muni áfrýja dómnum.
Grímur segir enn fremur að dómurinn slái því föstu að Geirmundur hafi aldrei haft ásetning til að fara gegn hagsmunum sparisjóðsins heldur hafi allar ákvarðanir hans verið teknar með hagsmuni sparisjóðsins að leiðarljósi. Geirmundur var ákærður í tveimur liðum en var eins og fyrr segir sýknaður að öllu leyti.
„Í fyrri ákæruliðnum, tengdum lánveitingu til Duggs, er staðfest að ráðstöfunin fól eingöngu í sér efndir á skuldbindingum sem sparisjóðurinn hafði áður stofnað til. Sparisjóðsstjórinn getur því ekki hafa framið lögbrot með því að efna þær skuldbindingar. Í síðari ákæruliðnum, tengdum framsali stofnfjárbréfa til Fossvogshyls, er staðfest að sparisjóðurinn hafði ávallt fullt forræði yfir félaginu Fossvogshyl og eignum þess. Þar af leiðandi fólst hvorki auðgunarásetningur né fjártjónshætta fyrir sparisjóðinn í ráðstöfuninni,“ segir Grímur í viðtali við mbl.is.
„Geirmundur ól allan sinn starfsaldur hjá sparisjóðnum og þar af í rúm 20 ár sem sparisjóðsstjóri. Allan sinn starfsferil hafði hann hagsmuni sparisjóðsins að leiðarljósi í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Síðustu ár, á meðan þetta mál hefur verið til rannsóknar og saksóknar, hafa verið Geirmundi og fjölskyldu gríðarlega þungbær. Er það von hans að þess máli sé nú lokið,“ segir Grímur enn fremur við mbl.is.