Geirmundur neitar sök
Geirmundur Kristinsson fyrrum sparisjóðsstjóri í Keflavík, neitaði sök þegar þingfesting í máli gegn honum fór fram í héraðsdómi Reykjaness í gær.
Geirmundur er ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum með lánveitingum til einkahlutafélaga. Fjárhæðirnar í ákærunni nema tæpum átta hundruð milljónum króna. Brotin geta varðað allt að sex ára fangelsi. Mbl greinir frá.
Í ákæru segir að Geirmundur hafi stefnt fé sparisjóðsins í verulega hættu þegar hann fór út fyrir heimildir til lánveitinga með því að veita einkahlutafélaginu Duggi 100 milljóna króna yfirdráttarlán þann 16. júní 2008. Afstaða lánanefndar lá ekki fyrir og áhættu- og greiðslumat fór ekki fram. Þá var endurgreiðslan ekki tryggð með nokkrum hætti.