Geirmundur ákærður
- Lýsir sig saklausan
Fyrrum sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík, Geirmundur Kristinsson, hefur verið ákærður fyrir misnotkun á stöðu sinni sem sparisjóðsstjóri með lánveitingum til einkahlutafélaga. Frá þessu er greint á vef RÚV. Sérstakur saksóknari hefur verið með mál tengd sparisjóðnum til rannsóknar lengi. Samkvæmt frétt RÚV var ákæran birt Geirmundi í gær og verður gerð opinber síðar í vikunni. Sparisjóðurinn átti í miklum fjárhagskröggum eftir hrun og var lokað árið 2010.
Í ákærunni er Geirmundi gefið að sök að hafa framið umboðssvik og er ákært fyrir tvö tilvik sem bæði varða lánveitingar til einkahlutafélaga. Ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness 1. apríl næstkomandi.
Verjandi Geirmundar sagði í samtali við fréttastofu RÚV að sparisjóðsstjórinn fyrrverandi lýsti sig saklausan af ákærunni. Hann hafi aðstoðað lögreglu við rannsókn málsins og að það séu honum veruleg vonbrigði hve langan tíma rannsóknin tók. Fall Sparisjóðsins í Keflavík kostaði skattgreiðendur um 20 milljarða króna.