Geir höggvi á hnútinn
Skorað er á Geir H. Haarde, forsætisráðherra, að höggva á þann hnút og deilur sem nú eru uppi um lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum, í ályktun opins fundar sem Guðni Ágússton og Bjarni Harðarson, þingmenn kjördæmisins boðuðu til á Ránni í gærkvöld. Fundarefnið voru málefni lög-, toll- og öryggisgæslu á Keflavíkurflugvelli.
Um 100 manns mættu til fundarins en frummælendur voru auk þingmannanna þeir Jón Halldór Sigurðsson, formaður Lögreglufélags Suðurnesja, Guðbjörn Guðbjörnsson, formaður Tollvarðafélags Íslands og Þorleifur Már Friðjónsson, varaformaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins.
„Fundurinn telur að ekki sé skynsamlegt að hrapa að breytingum og uppstokkun á embættinu því sameinað lögreglu- og tollstjóraembætti hefur náð miklum árangri.
Nú þegar er landsmönnum misboðið að fylgjast með þessum deilum sem veikja varnir Íslands," segir í ályktuninni sem samþykkt var einróma með lófataki.