Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Geimálfurinn frá Varslys gefinn í Njarðvíkurskóla
Þriðjudagur 10. febrúar 2004 kl. 15:17

Geimálfurinn frá Varslys gefinn í Njarðvíkurskóla

Gunnar Stefánsson formaður björgunarsveitarinnar Suðurnes gaf krökkum í 4. bekk Njarðvíkurskóla í dag bækur um Geimálfinn frá Varslys, sem er lífsleiknisnámsefni um slys og slysavarnir. Krakkarnir í 4. bekk voru ánægð með gjöfina, en Björgunarsveitin Suðurnes mun afhenda bókina krökkum í 4. bekk í öllum skólum í Reykjanesbæ.


Um þessar mundir eru flestar einingar Slysavarnafélagsins Landsbjargar að gefa grunnskólum landsins námsefnið Geimálfurinn frá Varslys, lífsleikninámsefni um slys og slysavarnir.  Efnið er ætlað nemendum í 4., 5. og 6. bekk og helsta markmið þess er að draga úr slysum á börnum og unglingum auk þess að efla samstarf heimila og skóla í slysavörnum.
Geimálfur frá plánetunni Varslys brotlendir á Íslandi. Hann áttar sig illa á þeim hættum sem steðja hér að honum úr ýmsum áttum. Nemendur fylgjast með þrautagöngu hans og vinna mörg og ólík verkefni. Í námsefninu og kennsluleiðbeiningum er töluvert um ábendingar á gott efni á vefnum og er tilgangurinn í senn að ýta undir sjálfstæða þekkingarleit, nemenda og kennara, og að benda á skemmtilegar síður með leikjum, þrautum og þjónustu sem tengist efninu.

Þemaheftin eru 6 talsins og fjalla um ýmsar hættur í umhverfinu s.s. í tengslum við ár, höf og vötn, rafmagn og opinn eld, umferðina og hættuleg efni sem víða er að finna. Heftunum fylgir kennarahandbók og safndiskur með myndskeiðum en í tengslum við námsefnið verður fljótlega opnaður vefurinn www.geimalfurinn.is

Myndin: Gunnar Stefánsson ásamt nemendum og kennurum í 4. SH í Njarðvíkurskóla.

VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024