Gegnumlýsa fálka í Leifsstöð - Fjórðungur skotinn með haglabyssu
Náttúrufærðistofnun Íslands hefur verið gert að spara eins og öðrum ríkisstofnunum. Hins vegar þarf stofnunin áfram að sinna skyldum sínum og leitar því leiða til að gera hlutina á ódýrari hátt.
Árlega er nokkuð um að komið sé með dauða fálka og aðra merkilega fugla til stofnunarinnar og þarf að skera úr því hvort dauða þeirra hafi borið að með saknæmum hætti. Til þess að komast að því hefur eina leiðin verið sú að röntgenmynda fuglshræin.
Röntgenmyndataka hefur hins vegar reynst of dýr aðgerð og því var gripið til þess ráðs hjá Náttúrufræðistofnun Íslands að semja við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Nú er reglulega farið með þá fálka sem finnast dauðir í Leifsstöð þar sem þeim er rennt í gegnum gegnumlýsingartækin í flugstöðinni. Þær myndir sem þar fást duga Náttúrufræðistofnun Íslands til að skera úr um það hvort glæpur hefur verið framinn. Gegnumlýsingin á sér stað á þeim tíma sem engir farþegar fara um flugstöðina.
Stærsta fréttin er hins vegar sú að í 25% þeirra fugla sem hafa verið gegnumlýstir finnast högl, sem bendir til þess að veiðimenn séu að skjóta fálka, sem er stranglega bannað.
Myndin er af vef Náttúrustofu Suðurlands.