Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gefast líklega upp við að bjarga flaki Guðrúnar Gísladóttur KE
Mánudagur 24. maí 2004 kl. 11:06

Gefast líklega upp við að bjarga flaki Guðrúnar Gísladóttur KE

Flest bendir nú til þess að hætt verði við að reyna að lyfta flaki Guðrúnar Gísladóttur KE af hafsbotni í Nappstraumen í Noregi þar sem skipið hefur hvílt í tæplega tvö ár. Komið hefur í ljós að mjög löng rifa er á annarri hlið skipsins sem talið er útilokað að þétta þannig að skipið haldist á floti.
Frá þessu er greint í Fiskaren í dag. Þar segir að rifan sé 35-40 metra löng og hún hafi ekki komið í ljós fyrr en skipið var rétt við og komið á kjöl á hafsbotninum. Talið er líklegt að rifan hafi komið á skipið við að nuddast við grjót á hafsbotninum.
Það var engin leið fyrir okkur né starfsmenn björgunarfyrirtækisins Selöy Undervannsservice að sjá þetta fyrir. Rifan er það stór að við veltum því nú fyrir okkur í alvöru hvort það sé forsvaranlegt að reyna að lyfta skipinu. Þá eru líka takmörk fyrir því hve verja má miklum fjármunum í þetta verk, segir Tor Christan Sletner hjá björgunardeild norsku strandstofnunarinnar.
Sletner segir að svo virðist sem að farmur skipsins, sem var fryst síldarflök, sé byrjaður að leka út í gegnum rifuna.
Ákveðið verður í dag hvort hætt verður við að reyna að lyfta skipinu. Líklegt er talið að það verði ofan á en að reynt verði að ná farminum og olíu úr tönkum til þess að lágmarka það umhverfistjón sem orðið getur í framtíðinni.

Vefurinn http://www.skip.is greinir frá þessu í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024