Gefa ráðamönnum einn séns til viðbótar áður en farið verður í lokanir
- Segja ekki bresti í samstöðunni um Reykjanesbraut
„Það eru engir brestir í hópnum. Við erum öll sammála um að ljúka þurfi við tvöföldun Reykjanesbrautar og það strax! Stór hluti hópsins (fer stækkandi) er á því að fara þurfi í aðgerðir eins og lokun svo ráðamenn taki af skarið. Samt trúi ég því að aðrar leiðir séu árangursríkari. Hins vegar ef ekkert verður að gert þá mun ég sennilega enda í þeim hópi fólks sem vill loka,“ segir Ísak Ernir Kristinsson, einn af talsmönnum Stopp - hingað og ekki lengra, í fésbókarfærslu í gærkvöldi í kjölfar fréttar Víkurfrétta um hugsanlega bresti í samstöðu um Reykjanesbraut.
„Ég er þó ekki búinn að gefast upp á þeim leiðum sem ég trúi að muni skila okkur árangri. Síðan vinna Stopp hópsins var á fullu síðast hafa farið fram Alþingiskosningar og mannabreytingar ýmissa embætta.
-Við höfum ekki rætt við nýjan vegamálastjóra.
- Við höfum ekki rætt við nýjan Samgönguráðherra.
- Við höfum ekki rætt við nýja Samgöngunefnd Alþingis.
- Við höfum ekki rætt við núverandi þingmenn svæðisins.
Ég hef því lagt það til að við gefum því einn séns í viðbót að ræða við ráðamenn áður en við förum í lokanir,“ segir Ísak jafnframt.
„Hluti hópsins hittist í kvöld en ég heyrði svo í Ísak Erni Kristinssyni í síma. Hann vill reyna einu sinni enn viðræðuleiðina við ráðamenn og ég er svo sem til í það innan einhvers tímaramma,“ segir Guðbergur Reynissin í færslu seint í gærkvöldi. Hann hafði fyrr um daginn lýst því að hann ætlaði sér í aðgerðir með lokun Reykjanesbrautar til að berjast fyrir bættum aðstæðum þar.
Hann segir í færslu sinni að upp hafi komið hugmynd sem hann væri til í að ræða við samgönguráðherra. „Í Samgönguáætlun kemur fram að 2,3 milljarðar eru áætlaðir vegna tvöföldunar frá Kaldárseli að Krísuvíkurafleggjara strax, en 3,3 milljarðar vegna kaflans frá Krísuvíkurafleggjara til Hvassahrauns eftir 2024. Gæti verið lausn að sami verktakinn taki þessi verk að sér og hefjist handa við það núna, en fengi seinnihlutann greiddann á 10 árum? Þar með fengjum við umferðaröryggi strax en Ríkið greiðir samt á þeim tíma sem samþykkt er í Samgönguáætlun?,“ spyr Guðbergur. „Eru ekki einhverjir verktakar til í þetta? Hafið samband og leysum þetta,“ skrifar hann að lokum.