Geðveikir dagar á Suðurnesjum
Í dag hefst forvarnarverkefnið „Geðveikir dagar á Suðurnesjum“ með formlegri opnun Bjargarinnar, geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja, í nýjum húsakynnum að Suðurgötu 12 og 15.
Dagskráin hefst kl. 16 með setningu Árna Sigfússonar, bæjarstjóra, ávarp flytja Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri, Ragnheiður Sif Gunnarsdóttir, forstöðumaður Bjargarinnar, Þór Þórarinsson, frá félagsmálaráðuneytinu og fleiri.
Dagskrá Geðveikra daga nær yfir þrjá daga þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag.
Á miðvikudag verður sölusýning í Björginni með verkum eftir félaga Bjargarinnar, húsið opnar kl. 10 og verður opið til kl. 16.
Frá 10:30 til 11:30 er formleg kynning á starfsemi Bjargarinnar, Geðveikri hönnun, Geðveikum dögum og heimasíðu miðstöðvarinnar.
Klukka hálf tólf er kynning á hundadragkeppni og í hádeginu verður matur í boði Skólamatar.
Klukkan eitt segja félagar Bjargarinnar frá reynslu sinni af Björginni og einnig verður ljóðaupplestur. Skákmót Bjargarinnar hefst einnig klukkan eitt og stendur til fjögur, tekið er við skráningum í síma 421-6744. Frá klukkan tvö sýna félagar Bjargarinnar Eldsmíði.
Um kvöldið eða kl. 19:30 verður Geðræktarganga þ.e. blysför frá Skrúðgarði að Björginni sem endar með léttum veitingum.
Dagskrá fimmtudagsins fer fram í Kirkjulundi, safnaðarheimili Keflavíkurkirkju, þar verður efnt til fræðsludags, Valdefling í verki. Fræðsludagurinn er á vegum Hlutverkaseturs og félags- og tryggingamálaráðuneytisins í samstarfi við fagfólk, notendur og aðstandendur á Suðurnesjum. Fundarstjórar eru Oddný Harðardóttir, bæjarstjóri í Garði og Róbet Ragnarsson, bæjarstjóri í Vogum.
Meðal fyrirlesara eru Auður Axelsdóttir, iðjuþjálfi, Elín Ebba Ásmundsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri og Hallgrímur Björgvinsson, meðlimur Hugarafls.
Að sögn Ragnheiðar Sifjar Gunnarsdóttir, forstöðumanns Bjargarinnar, leitar breiður og ólíkur hópur fólks til að fá stuðning við hæfi, allt frá því að rjúfa félagslega einangrun upp í starfs- og námsendurhæfingu eða til að fá stuðning með námi eða vinnu. Björgin er mikilvæg fólkinu sem fær endurhæfingu í heimabyggð.
Geðveikir dagar á Suðurnesjum er samfélagslegt forvarnarverkefni Bjargarinnar til að vinna gegn fordómum í samfélaginu. „Geðveikir dagar á Suðurnesjum er afrakstur ýmissa hugmynda sem upp hafa komið um það hvernig við getum haft áhrif á samfélagið og aukið vitund þess um mikilvægi geðræktar. Það geta allir misst geðheilsuna til lengri eða skemmri tíma. Sagt er að einn af hverjum fjórum missi geðheilsuna einhvern tíman á lífsleiðinni,“ segir Ragnheiður Sif.