Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Gatnagerðargjöld renni til hafnarinnar
Miðvikudagur 5. apríl 2006 kl. 17:05

Gatnagerðargjöld renni til hafnarinnar

Vegna taprekstrar Reykjaneshafnar hefur komið fram sú tillaga um að gatnagerðar- og fasteignagjöld af hafnarsvæðum í landi Reykjanesbæjar renni til hafnarinnar. Garðar Vilhjálmsson (D), bæjarfulltrúi og nefndarmaður í Atvinnu- og hafnarráði, lagði fram þessa tillögu á bæjarstjórnarfundi núna í vikunni en áður hafði bókun sama efnis komið fram á fundi hjá fulltrúa Samfylkingarinnar í Atvinnu- og hafnarráði. Með þessu væri hægt að auka tekjur hafnarinnar umtalsvert en rekstrartap hennar á siðasta ári nam tæpum 196 milljónum.

Í tillögu Garðars segir að Reykjaneshöfn hafi lagt í mikinn kostnað við endurbyggingu hafnarsvæða í Reykjanesbæ. Fjármagnsliðir séu af þessum sökum þungir á höfninni og brýnt að þær tekjur sem skapist vegna hafnsækinnar starfsemi nýtist höfninni fyrst og fremst. Ásókn í lóðir á hafnarsvæðinu í Helguvík hafi aukist að undanförnu og líkur séu á að umtalsverðar tekjur geti skapast af þeim, segir í tillögunni. Því sé lagt til að bæjarstjórn samþykki að gatnagerðargjöld og fasteignagjöld af skilgreindum hafnarsvæðum í landi Reykjanesbæjar, renni til Reykjaneshafnar sem framlag frá og með síðustu áramótum.
Þrátt fyrir að efni tillögunnar fengi góðan hljómgrunn í bæjarsjórn var samþykkt að vísa henni til umfjöllunnar í bæjarráði, þar sem fulltrúar minnihlutans töldu eðlilegra að hún færi þá leið.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024