Gat kom á olíutank Neptúnusar ÞH
Gat kom á einn olíutank nótaskipsins Neptúnusar ÞH sem tók niðri í innsiglingunni við Grindavík fyrir helgi þannig að olía lak í sjóinn. Eftir að skipið kom til hafnar í Grindavík og byrjað var að landa úr því virtist lekinn aukast. Settir voru ísogspúðar í kringum skipið sem soga í sig olíuna og því sem eftir var í tanknum, var dælt úr.Fulltrúi Holustuverndar ríkisins, sem fór á staðinn, segir að mengunin hafi ekki verið mikil en ómögulegt virðist að segja hversu mikið lak út. Skipið liggur enn við festar í Grindavík og áætlað er að það fari í slipp í dag þar sem gert verður við skemmdirnar. Neptúnus var að flytja kolmunna úr Berki NK til vinnslu hjá Samherja-Fiskimjöl og Lýsi hf. í Grindavík.