„Gaskútar í húsinu og flugeldar sprungu“
„Það var mikill eldur í öðrum enda hússins þegar við komum á staðinn. Þegar við höfðum verið við slökkvistörf í nokkrar mínútur þá urðu hér miklar sprengingar, en í húsinu voru gaskútar fyrir tjaldvagna og flugeldar,“ sagði Jón Guðlaugsson aðstoðarslökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja í samtali við Víkurfréttir á brunavettvangi. Þegar eldurinn komst í flugeldana dundu við miklar sprengingar og vöknuðu íbúar í nágrenninu við sprengingarnar. Aðspurður um það hvort mikil hætta hafi verið á ferðum segir Jón að það sé alltaf hætta á ferðum þegar slíkur eldur brjótist út. Að sögn Jóns gekk vel að ráða niðurlögum eldsins en fljótlega eftir að útkallið kom var kallað eftir aðstoð frá slökkviliði Keflavíkurflugvallar.
Myndir: Miklar sprengingar urðu í húsinu í nótt. Jón Guðlaugsson aðstoðarslökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja segir að alltaf skapist hætta þegar slíkur eldur komi upp. VF-ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson.