Garður: Vakandi yfir rekstri bæjarins og náð umtalsverðum árangri
Fjárhagsáætlun ársins 2012 hjá Sveitarfélaginu Garði var lögð fram til síðari umræðu ásamt þriggja ára áætlun á bæjarstjórnarfundi í Garði í gærkvöldi.
Bókun D-lista: „Fjárhagsáætlun ársins 2012 byggir á þeirri staðreynd að meirihluti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn náði strax á árinu 2011, á sínu fyrsta heila ári eftir kosningarnar 2010 tökum á fjármálum bæjarins. Í útkomuspá ársins 2011 kemur fram að fjárhagsáætlunin stenst áætlun um að vera í jafnvægi og skilar góðu búi til næsta árs. Verkefni næstu ára er að skapa í samfélaginu fleiri vel launuð störf sem munu bæta hag íbúa og bæjarsjóðs til betri verka. Þær óskir hafa fengið byr undir báða vængi þegar góðar líkur benda til að framkvæmdir við álver í Garði fari í fullan gang á árinu 2012 með afar jákvæðum áhrifum á fjölgun atvinnutækifæra og hækkandi meðaltekjum á íbúa á svæðinu. Í fjárhagsáætlun ársins 2012 eða í þriggja ára áætlun er ekki gert ráð fyrir auknum tekjum vegna álversframkvæmda eða framleiðslutekjum vegna álvers.
Tekjur ársins 2012 hækka um 2,6% frá árinu 2011 og verða 811.253.- mkr. og framlegð (EBITA), verður 10.766.000- þar til viðbótar verður 17 mkr. varið til viðhalds eigna. Fjárfestingar í fráveituframkvæmdum, göngustígum og opnum svæðum að upphæð 58 mkr eða alls 75 mkr. til framkvæmda á árinu 2012.
Hlutfall skatttekna af heildartekjum bæjarins hafa hækkað úr 58,9% í 62,6% á árunum 2010 – 2012. Á sama tíma hafa laun og launatengd gjöld lækkað sem hlutfall af tekjum úr 48,1% í 45,9%. Annar rekstrarkostnaður bæjarsjóðs og stofnana hans hafa lækkað sem hlutfall af tekjum úr 61% í 50,7%. Það sýnir að starfsmenn og bæjarfulltrúar hafa verið vakandi yfir rekstri bæjarins og náð umtalsverðum árangri til að bæta hag hans. Heildarlækkun kostnaðar sem hlutfall af skatttekjum er 10.4% á þremur árum. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 8% .
Fá sveitarfélög á Íslandi búa við jafn litlar skuldir og Sveitarfélagið Garður. Einu skuldir bæjarfélagsins eru í félagslegum íbúðum og íbúðum aldraða að upphæð 254.259.000.- eða sem nemur 170.000.- kr. á hvern íbúa.
Á móti á bæjarsjóður 591.260.000- í peningalegri eign á bankabók, eða sem nemur 402.000.- á hvern íbúa.
D- listinn hefur sýnt það að með áræði og festu hefur honum tekist að koma fjármálum og öðrum málefnum bæjarins á réttar brautir. Það þarf kjark til þess að breyta og taka erfiðar ákvarðanir og fylgja þeim eftir, en til þess vorum við kjörin“.
Fjárhagsáætlun ársins samþykkt með 4 atkvæðum D-lista, fulltrúar L og N lista sátu hjá. Þriggja ára áætlun var einnig samþykkt með 4 atkvæðum D- lista, fulltrúar L og N lista sátu hjá.